Evrópusambandsaðild

Nú er orðið langt síðan ég setti nýja færslu inn á síðuna og tímabært að gera það áður en ég fer í næstu löngu pásu - að sóla mig í Evrópusambandinu, í landi þar sem borgað er með EVRU (sem er víst alvöru gjaldmiðill), og þar sem allir hljóta því að hafa fulla vasa af peningum. (Akkúrat)

Í fjölmiðlum sumarsins hefur fátt farið hærra en umræða um gjaldmiðilsvandræði og Evrópusambandsaðild. Mikið er gert úr vandræðum okkar hérna á Íslandi, mikilli verðbólgu og kreppu. Lausnin sem helst er nefnd er að varpa gjaldmiðlinum okkar - krónunni - út í hafsauga og ganga í Evrópusambandið. Það á að vera það sem bjargar okkur. Ég ætla aðeins að tjá mig um þetta:

Í fyrsta lagi langar mig að benda á það að þegar Evran var innleidd í Ítalíu lækkaði ekki vöruverð heldur hækkaði um nokkurn veginn 50% (á mörgum vörum 100% til nokkurs tíma en leiðréttist svo aðeins). Launin hækkuðu hins vegar lítið sem ekkert. Mikið af fólki lenti í miklum vandræðum og ástandið er rétt um það bil að ná sér á strik núna - mörgum árum seinna. Svipaða sögu er að segja um amk. Spán og Þýskaland.

Í öðru lagi eru skilyrðin fyrir upptöku evrunnar m.a stöðugleiki í efnahagsmálum, lítill viðskiptahalli og lítil verðbólga og litlar erlendar skuldir. Þannig að þegar við mættum taka upp hina æðislegu evru sem á að lækna alla okkar kvilla - þurfum við að vera búin að losa okkur við kvillana sjálf. Það er eins og ef maður kæmi með veikt barn til læknis og hann segðist eiga frábært lyf til að lækna það. Það eina sem þyrfti að gera væri að vera orðinn heilbrigður til að fá lyfið!!!

Í þriðja lagi velti ég því oft fyrir mér hvað það er sem fólk telur sig fá út úr evrunni. Lægri vextir? Engin verðtrygging? Ok, má vera. En hvað þá? Getur fólk þá haldið áfram að lifa um efni fram á lágvaxtakjörum? Heldur fólk í alvöru að það verði ekkert mál að fá peninga og aftur peninga, án þess að borga nokkuð fyrir það? Heldur fólk að bankarnir láni óverðtryggða milljón og sætti sig við að fá aðeins andvirði 900 þúsunda til baka? Í hvaða draumaheimi lifir fólk eiginlega?

Í fjórða lagi vil ég benda á það að Evrópusambandið er ekki gjaldmiðill. Ýmsir aðilar hafa lýst því yfir að þeir vilji aðildarumsókn að ES til lausnar á gjaldmiðilsvanda okkar. Það er nokkuð ljóst að krónan okkar er ekki gallalaus. En að ganga í Evrópusambandið er ekki bara að taka upp annan gjaldmiðil. Það fylgir því svo óendanlega margt annað - svo  miklar hömlur, svo margir gallar, fullveldisframsal, sennilegar launalækkanir og síðast en ekki síst óendanlegt reglugerðarfargan og hömlur á stærri og sérstaklega smærri fyrirtæki. Ég vil sérstaklega vara ferðaþjónustufyrirtæki við aðild. Hvaða sérstöðu eiga ferðamenn að sækjast í hér á Íslandi þegar allt verður komið undir samræmda Evrópusambandsstaðla?

Mér finnst það í rauninni lúalegt bragð Evrópusambandssinna að nota sér efnahagslægðina til að ýta okkur inn í Evrópusambandið. Efnahagslægðin er úti um allan hinn vestræna heim. Eldsneytisverð og matvælaverð hefur allsstaðar rokið upp í hæstu hæðir. Kreppan hérna heima er ekki tilkomin vegna þess að við séum ekki í Evrópusambandinu og lausnin er ekki sú að ganga þar inn. Ég óttast hins vegar að með Evrópusambandssinna við stjórnvölinn gangi hægt að vinna í öðrum lausnum vandans. Sá vonarneisti hefur nefninlega kviknað að kreppan geti verið nothæf átylla til að sannfæra okkur um nauðsyn aðildar.

Við þurfum einfaldlega að líta í eigin barm. Hætta að eyða um efni fram, enda hlýtur það að vera augljóst að það gengur ekki upp til lengdar að eyða meir en maður aflar. Sennilega verður þetta sársaukafull aðlögun en hún er óumflýjanleg og vonandi lærdómsrík. Evran er engin undraelexír enda þarf efnahagslífið að ná heilbrigði til að mega njóta hans. Það er hins vegar markmið sem verður að nást.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tryggvi Thayer

"Mikið af fólki [á Ítalíu] lenti í miklum vandræðum og ástandið er rétt um það bil að ná sér á strik núna - mörgum árum seinna. Svipaða sögu er að segja um amk. Spán og Þýskaland."

Væri ekki nær að miða mögulega upptöku Íslands á Evru við Finnland t.d. sem er frekar nær okkur að mörgu leyti en Ítalía, Spánn eða Þýskaland. Þetta gekk bara nokkuð vel hjá Finnum og þeir nokkuð ánægðir með breytinguna, sem og fleiri lönd. Eða varstu kannski bara að benda á löndin þar sem mesta andstaða var við breytinguna?

Eftir upptöku Evru voru fréttir fullar af sögum um svik, óréttlátar hækkanir og erfiðleika vegna nýja gjaldmiðilsins. Samt sem áður virðast íbúar Evru landanna vera orðnir nokkuð sáttir við Evruna ári síðar - m.a.s. á Ítalíu (sjá sp. 19 & 20 hér: http://ec.europa.eu/public_opinion/flash/fl139_vola.pdf).

"Í öðru lagi eru skilyrðin fyrir upptöku evrunnar m.a stöðugleiki í efnahagsmálum, lítill viðskiptahalli og lítil verðbólga og litlar erlendar skuldir. Þannig að þegar við mættum taka upp hina æðislegu evru sem á að lækna alla okkar kvilla - þurfum við að vera búin að losa okkur við kvillana sjálf."

Hver segir að Evran eigi að vera lækning? Evran er partur af víðtæku samstarfi sem miðar að því að auka stöðugleika efnahagsmála. Það er augljóst að ef aðilum er hleypt að án þess að gerðar séu forkröfur um stöðugleika hjá þeim sjálfum er stöðugleika samstarfsins sem heild ógnað. Mér finnst svolítið yfirgengilegt að gefa í skyn að ES eigi að bjarga málum okkar sem við höfum sjálf klúðrað svo rækilega.

"Mér finnst það í rauninni lúalegt bragð Evrópusambandssinna að nota sér efnahagslægðina til að ýta okkur inn í Evrópusambandið."

Mér finnst eiginlega jafn lúalegt af andstæðingum ES að nota villandi rök til að styðja sinn málstað.

Tryggvi Thayer, 30.7.2008 kl. 14:21

2 Smámynd: Fannar frá Rifi

er ESB hlynt lýðræði íbúanna?

svarið er einfalt.

Nei.

Ef íbúar ESB kjósa, ef þeir eru svo heppnir að fá að kjósa um eitthvað, og svarið er nei, þá er það ekki gilt svar. 

Svona svipað og ef kosið væri til Forseta Íslands milli Ólafs Ragnars og Ástþórs. Síðan þegar meirihlutinn væri búinn að kjósa Ólaf þá kæmi ESB og segði að þetta gengi ekki og kjósa þyrfti aftur því það fékkst ekki rétt niðurstaða að þeirra mati. 

ESB er svæði sem er búið að vera messt megnið í djúpri efnahagslægð og hún dýpkar gríðarlega núna. +10% atvinnuleysi segir það sem segja þarf. útflutningsvandi vegna of sterks gjaldmiðils og síðan núna síðast of lágravaxta er að drepa efnahag þeirra landa sem ESB sinnar hafa notað sem messt sem góð dæmi.

Spánn og síðan helst Írland. á Írlandi eru reyndar sterkar raddir um að slíta sig frá myntbandalaginu. á Ítalíu hafa heyrst sömu raddir þar sem útflutningur á Ítalíu er að leggjast af. á Spáni er yfirvofandi kreppa. í Danmörku er kreppa hafin. 

Ef það er bara hægt bera sig saman við eitt land, Finna, og benda á þá sem gott dæmi af öllum ESB löndunum, er það þá ekki frekar slæmt að eitt af hvað 27 löndum kemur vel út úr ESB?

Fannar frá Rifi, 8.8.2008 kl. 01:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband