Þýskir sósíaldemókratar

Nú þegar flestir tjá sig um bandarískar kosningar og stjórnmálahræringar ætla ég að taka mig útúr og skrifa smá um þýska stjórnmálamenn.

Eins og margir muna eftir tóku sósíaldemókratar og Kristilegir demókratar saman höndum eftir síðustu þingkosningar í Þýskalandi. Nokkur líkindi eru með því stjórnarmynstri og því sem við búum við hér á Fróni. Um er að ræða flokka sínhvoru megin við miðju - annar vinstri flokkur en hinn hægri. Auk þess eru þetta stærstu flokkarnir í Þýskalandi. Ég mun ekki dæma frekar um líkindi CDU/CSU við Sjálfstæðisflokkinn en oft finnst mér þó að frelsiselementið vanti í CDU/CSU.

Stjórnarflokkunum í Þýskalandi hefur hins vegar ekki gengið vel að halda fylgi sínu. Sérstaklega hefur sósíalistunum gengið brösuglega og bæði fylgið og skráðir flokksmenn fjúka burt eins og fræ af fíflum (hér meina ég blómið) gera í hvassri norðanátt. Vandamálið virðist vera farsótt sem geysar meðal sósíalistaflokka nútímans - í Bretlandi, Þýskalandi og jafnvel á Íslandi. Vinstri síðunni af flokknum finnst hún vera vanrækt og að flokkurinn hafi svikið málstaðinn. Vinstri flokkurinn í Þýskalandi nýtur góðs af, en einnig (undarlegt en satt) öfga-hægriflokkar. Sósíalistar í Þýskalandi glíma við það erfiða verkefni að stefna ekki þjóðarskútunni upp á sker en reyna þó á sama tíma að sannfæra sína vinstri sinnuðu kjósendur um að þeir séu ennþá alvöru sósíalistar. Einhverjir myndu segja að slíkt kallaðist á ensku "Mission Impossible".

Klárlega er þó þeirra helsti höfuðverkur í dag að þeir eiga enga kraftmikla forystu. Kurt Beck0,1020,1293053,00 formaður var að segja af sér og flokkurinn var að lýsa yfir því að Steinmeier yrði kanslaraefni þeirra í kosningunum á næsta ári. Ekki er talið að Steinmeier hafi sóst mjög eftir þeirri tilnefningu - þeir áttu engan skárri. Hann er hins vegar utanríkisráðherra Þýskalands og því má búast við að samstarf utanríkisráðherrans og kanslarans (Angela Merkel CDU/CSU) fari að stirðna - enda er það orðið opinbert að hann sækist eftir starfinu hennar.

Steinmeier hefur verið talinn hægra megin í flokknum og var einn af höfundum umbótastefnu Schröders, Agenda 2010, sem átti að hreinsa til í velferðarkerfinu (ekki veitti af) en þynntist í fyrsta lagi út og varð í öðru lagi að beittu vopni 0,1020,1293039,00kommúnista gegn sósíalistaflokknum. Steinmeier er hæglátur og teflir aldrei á tæpasta vað. Hann er sagður svo hræddur við að gera mistök að hann geri helst ekki neitt. Der Spiegel segir hann leiðinlegan og að af ótta við að segja eitthvað rangt tali hann óendanlega hægt og svo langt bil sé á milli setninga á meðan hann er að hugsa að oft haldi maður að hann hafi bara dottað! Spurning hvernig honum gangi að vinna sér og flokknum fylgi. Það verður gaman að sjá hvort hann spýtir í lófana.

Kannski verða úrslit kosninganna eins og ég tel að kæmi Þjóðverjum best. Þ.e. að Kristilegir demókratar (CDU/CSU) og Frjálslyndir (FDP) verði í ríkisstjórn. Það var það sem ég bjóst við síðast en mér til mikillar undrunar töldu þýskir kjósendur að leiðin út úr vinstri vítahringnum, sem þeir og velferðarkerfi þeirra var búið að rata í, væri að kjósa enn lengra til vinstri. Die Linken (vinstri vinstri menn) náðu töluverðri uppsveiflu þannig að eina stjórnarmynstrið í stöðunni var ríkisstjórn stóru flokkanna. Þetta er líka ríkisstjórn hinna stóru málamiðlana, en það heitir á mannamáli "að fresta vandamálunum". Ég held að CDU/CSU og FDP yrði góður kostur fyrir Þýskaland. Góð blanda af íhaldsemi og frjálshyggju. Ekki veitir af.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Þór Jónsson

Klukk Örvar

Magnús Þór Jónsson, 14.9.2008 kl. 13:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband