2.4.2007 | 11:43
Yndislegur sunnudagur í yndislegri náttúru
Enn er bræla. Það er mokfiskirí ef maður bara kemst á sjó, það er bara svo sjaldan. Nú er komið hrygningarstopp á grunnslóðinni og því þarf að sækja lengra. Annars hefur fiskgengdin verið lygileg síðasta mánuðinn. Brælurnar hafa þó sínar góðu hliðar.
Átti yndislegan frídag í gær. Fór í sunnudagaskólann með fjölskyldunni eins og alla sunnudaga sem ég er í landi og tók mér svo frí frá lærdómnum til að fara í reiðtúr með fjölskyldunni inni í Stykkishólmi. Ég hef reyndar ekki farið á hestbak í tvö ár en þetta virðist vera eins og að hjóla, maður er fljótur að ná þessu aftur. Ég hefði vel getað hugsað mér að vera á baki í aðra tvo tíma en er feginn því í dag að hafa haft vit á því að stoppa, á erfitt með að finna góða stellingu til að sitja.
Stundum er því ágætt að ekki sé sjóveður. Er eiginlega feginn því líka í dag. Þarf að koma lærdómnum á rétt strik til að geta notið þess að fara í páskafrí. Eftir páska verður tíminn til lærdóms eitthvað í knappara lagi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.