24.4.2007 | 11:50
Á að breyta bara til að breyta?
Eigum við að breyta bara til að breyta? Áróður um að Sjálfstæðismenn séu orðnir þreyttir er enn farinn að láta á sér kræla enda er oftar en ekki gripið til þess frasa þegar málefnastaða vinstri manna er vonlaus. Af hverju á að breyta? Er staðan virkilega svo góð að við getum leyft mönnum sem staðið hafa á móti hverju framfaramálinu á fætur öðru fyrir stjórnartaumunum? Sú staða er Sjálfstæðismönnum að þakka. Líta vinstri stjórnmálamennirnir svo á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi gert stöðuna svo góða að nú hafi sósíalistarnir frítt spil? Ætla þeir þá að nýta sér góðærið sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur skapað? Í aðra röndina fárast þeir yfir þeim aðgerðum sem hafa skilað okkur mjög vel stæðum ríkissjóði og í hina röndina keppast þeir um kosningaloforð sem byggja á þessari góðu stöðu. Kosningaloforð sem eru reyndar þannig að ef öll eru samantekin verður ríkissjóður rjúkandi rúst.
Eigum við að breyta til þess að hækka skattana aftur? Eigum við að breyta til þess að snúa einkavæðingunni við? Einkavæðing ríkisbankanna fer einstaklega mikið í taugarnar á vinstri mönnum. Fyrir einkavæðingu þurfti ríkissjóður oft að styrkja bankana. Nú skila þeir tugum milljarða í skatttekjum. Fyrir þá peninga er t.d. hægt að halda úti öflugu menntakerfi. Eigum við að snúa því við? Láta þann kostnað lenda á vinnandi fólki sem er að koma undir sig fótunum? Sagan sýnir að álögur hins opinbera hækka á tímum vinstri stjórna en lækka aldrei nema Sjálfstæðisflokkurinn eigi hlut að máli. Sagan sýnir að þó vinstri menn reyni að takast á við vandamálin þá eru það lausnir Sjálfstæðismanna sem virka. Það er bara þannig.
Dæmi um vinstri stjórn sem er ekki mjög gamalt:
Í tólf ár fengu Reykvíkingar að kynnast vinstristjórn í framkvæmd þegar R-listinn sat hróðugur í ráðhúsinu. Sá tími einkenndist af skattahækkunum og stórfelldri skuldasöfnun borgarinnar. Það er bara þannig.
Verkefnin eru fjölmörg framundan og víða má bæta ástandið. Ef svo væri ekki væru stjórnmálamennirnir atvinnulausir, sama í hvaða flokki. Vinstri menn geta eytt fullt af pening í lausnir sem virka ekki en sagan sýnir að Sjálfstæðisflokknum er best treystandi fyrir úrlausnum sem virka.
Athugasemdir
Heyr heyr. Ef ýmsir vinstrimenn hefðu fengið að ráða þá væri bjór bannaður á landinu. Forræðishyggjan í þeim er svo yfirþyrmandi að þeir myndu helst vilja ráða því hvað landsmenn hefðu í kvöldmatinn á fimmtudögum.
Fannar frá Rifi, 24.4.2007 kl. 21:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.