Fíklar í sandkassaleik??

Ekki kemur þetta mikið á óvart. Hafa vinstri stjórnir yfirleitt einhvern tíma lækkað skatta??   Vinstri flokkarnir hafa frekað þyngt skattbyrðina og búið til nýjar og verið bara nokkuð duglegir við það. REI listinn vill frekar dreifa út 270 milljónum (sem vaxa auðvitað á trjánum) handstýrt út og stuðla þannig að því að seinka óhjákvæmilegri leiðréttingu íbúðaverðs.

Þá heldur íbúðaverð áfram að hækka, efnalitlir hafa litla möguleika á því að eiga fyrir útborguninni, sem þrátt fyrir að vera orðin lægri prósenta af heildaríbúðarverði er samt sem áður orðin miklu hærri upphæð en nokkurn tíma áður, og síðast en ekki síst fasteignagjöldin halda áfram að hækka (vegna hækkunar íbúðaverðs). Þeir sem sjá um að reka borgarsjóð hafa mesta hagsmuni af áframhaldandi hækkun íbúðaverðs og það hlakkar í þeim um leið og þeir þykjast hafa samúð með íbúðarkaupendum. Þess vegna munu þeir reyna að "hjálpa" fólki að kaupa íbúðir á yfirverði til að halda vitleysunni lifandi. Þeir hafa mestan hag af því að þenslan á markaðnum haldi áfram! Þetta er eins konar fíkn og verður ekki læknuð nema á róttækan hátt!Police

Það kæmi hinum efnaminni aftur á móti mikið betur að þenslan sigi aðeins til baka, vextir kæmust kannski aftur í eðlilegt horf og útborgun yrði kannski aftur yfirstíganlegt dæmi (sem er háð því að hér verði raunveruleg kaupmáttaraukning - sem er aftur háð því að verðbólga minnki - sem er einmitt háð því aftur að íbúðaverð haldi ekki áfram að hækka á brjálæðislegan hátt !!!! Þetta bítur í skottið á sjálfu sér).  En það yrði REI listanum ekki að skapi því þá minnkar svigrúm þeirra til handahófskenndra (enginn málefnasamningur til) útbýtinga og eyðslusemi.

Hitt er svo annað mál að útilokað var að núverandi borgarstjórnarmeirihluti myndi samþykkja tillögu minnihlutans - sama hversu góð hún hefði verið. Það tíðkast bara ekki í sandkassanum!


mbl.is Tillaga um að lækka fasteignaskatt felld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svo má ekki gleyma því að brjálæðið er í raun meira eingöngu vegna þess að við höfum aðrar reikniformúlur. Í flestum Evrópulöndum eru fasteignir ekki inni í vísitölunni, að breyta þessu hér á landi myndi breyta miklu. Annars er hægt að breyta ýmislegu til þess að bæta ástandið, við þurfum ekki endilega að ganga í ESB.

Geiri (IP-tala skráð) 21.11.2007 kl. 02:31

2 identicon

Sæll,

þú getur skrifað um hvað þetta er ómögulegt og vitlaust hjá VINSTRI flokkunum.  Ég skora á þig að setja fram tillögur (RAUNHÆFAR) til úrbóta fyrir þá 1.600 manns sem eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði BARA í Reykjavík!

Gerum ráð fyrir að fólkið sem er á biðlistanum eigi engann pening og þá skiptir ekki máli af hverju það á engann pening.  Mig langar að vita hvar þér finnst að þetta fólk eigi að búa, með jafnvel 2 börn.  Einhverjir þessara á biðlistanum búa líklega í leiguhúsnæði á ofurverði sem þeir missa jafnvel bráðum. 

Fyrir utan þetta þá er "útborgun" í íbúð ansi furðulegt fyrirbæri þegar um fyrstu kaup er að ræða.  MJÖG ódýrar íbúðir í dag kosta 13 milljónir.  Ef börnin okkar fá húsbréf upp á 70% af verði fyrstu íbúðarinnar sinnar þurfa þau að eiga 3,9 milljónir í útborgun.  Er í alvörunni einhver fræðilegur möguleiki á þessu???  Við skulum nú vona að börnin fari í Háskólann og þegar því líkur á ég ekki von á dætur mínar eigi mikið meira en skuldir (námslán).  Kannski reiknar þú með að börnin þín búi heima hjá þér þar til þau verða ca. 30 ára???

Punkturinn í þessu hjá mér er sá, að það er engin glóra í þessum húsnæðismarkaði, nákvæmlega sama hvernig þú reiknar þetta!!!

Sigurlaug Anna (IP-tala skráð) 21.11.2007 kl. 16:52

3 identicon

Sæl Sigurlaug, er hérna einn sem var að flytja að heiman 22 ára og keypti á 12,8. Ég ætla ekki að ganga svo langt að segja að ástandið sé ásættanlegt en hinsvegar er það ekki jafn einhliða og oft kemur fram í umræðunni. Ungt fólk hlýtur að bera einhverja ábyrgð, allavega í sumum tilfellum. Ég reyndar viðurkenni alveg að ég gat bara safnað fyrir helmingnum á útborgun þó ég hafi byrjað 16 ára, á sem betur fer góða ættingja sem hjálpuðu mér. En mér til varnar að þá bý ég aleinn og það kostar alltaf hlutfallslega meira en þegar par fer í sambúð. Einnig gerði ég ráð fyrir að það þyrfti bara 1,5 milljónir í útborgun þegar ég byrjaði að safna árið 2001, en ég þurfti slétt 3 milljónir. Ég var reyndar alveg til í að safna áfram en hugmyndin um að styrkja mig kom frá ættingjum mínum af fyrra bragði. Ég setti 300.000 kr mörk fyrir kaup á húsgögnum og raftækjum fyrir íbúðina, finnst sjálfsagt að hafa bara það sem er nauðsynlegt til að byrja með en ekki halda í nákvæmlega sama lífstíl. T.d. er ódýra kassasjónvarpið sem var í herberginu mínu núna komið í stofuna, finnst eðlilegt að bæta við hlutum smátt og smátt þegar fjármálin gefa svigrúm til þess. Það er frekar augljóst að mín kynslóð er einhverskonar "neyslukynslóð" sem er vön því að hafa aðgang að öllu, vön því að þurfa ekki að gera ráðstafanir langt fram í tímann. Ég vona að ég sé undanteknin eða reyni allavega að lifa lífinu með því hugafari.

Neysluæðið er svo mikið að margir byrja að safna kreditkortum þegar sjálfræðisaldrinum er náð. Oft er það þannig að þegar ákvörðunin er tekin að flytja að þá á það að gerast á næstu mánuðum þó að það sé ekki búið að safna neinu fyrir útborgun. Fermingabörn í dag eru oft að fá hundruðir þúsunda en sjaldgæft er að það sé afgangur af því þegar flutt er að heiman. Held að það sé mikilvægt fyrir framtíðina að breyta hugarfarinu. Foreldrar eiga helst að stofna lokaða sparireikninga strax eftir fæðingu, einnig finnst mér eðlilegt að unglingar stofni eigin sparireikning og leggi helming launa sinna á hann. Sumir foreldrar fara ennþá eftir gömlu agahefðinni að láta börnin borga heim þegar þau fara að vinna, en að mínu mati er betra að semja bara um það að X mikill peningur fari á lokuðu sparibókina. Kennir sama aga og að borga heim en flýtir fyrir að flytja að heiman. Margir byrja á leigumarkaðnum en það er frekar augljóst að fólk með lágar tekjur mun aldrei geta safnað fyrir útborgun, samt flytja margir með því hugafari að þetta reddist bara seinna. Einnig finnst mér kröfurnar vera oft of háar þegar kemur að fyrstu íbúð og hlutina sem á að kaupa í hana. Ég fullyrði að það sé algengt að ungt fólk kaupi sér plasma sjónvarp fyrir hundruðir þúsunda stuttu eftir að flutt er að heiman, í flestum tilfellum er það keypt með vaxtamiklum raðgreiðslum. Svo er það oft þannig að mörgum þúsundum er eytt um helgar í djamm (leigubíl og áfengi), flestir virðast ekki geta slakað á því fyrr en búið er að eignast  fyrsta barnið. Ég allavega verð oft vitni að miklu kæruleysi hjá jafnöldrum mínum, held að það að hafa búið hjá einstræðri móður sem endaði í gjaldþroti hafi takmarkað neysluflipp hjá sjálfum mér. Á reyndar eitt kreditkort upp á öryggið en ég hef vanið mig á að ganga ekki með það á mér og að eingöngu sérstakar aðstæður réttlæti notkun.

Annars í lokin vil ég bara segja að háskólanemar verða að hafa plön um búsetu langt fram í tímann (er þó ekki að fullyrða neitt um þín börn). T.d. fara sumir þá leið að vinna fyrst í nokkur ár og fara aftur í nám eftir að búið er að kaupa íbúð. Ég lýt ekki á það sem mannréttindi að geta farið í háskólanám og fengið bara afhenta lykla að íbúð að loknu námi. Annars voru þetta bara almennar vangaveltur hjá mér og ég vona að enginn taki þær nærri sér.

Geiri (IP-tala skráð) 23.11.2007 kl. 03:44

4 identicon

Sæll Geiri,

Skemmtilegt innlegg frá þér, ég er samt ennþá að bíða eftir svari frá Örvari um þar hvar fólkið á biðlistanum um félagslegt húsnæði á að búa

Það er sérstaklega sá hópur sem ástæða er til að hafa áhyggjur af.  Fólk lendir í ýmsu um ævina, það skilur, verður veikt eða einhver í fjölskyldunni veikist eða þá að það missir sína nánustu.   Tímabundnir slíkir erfiðleikar geta orðið til þess að allt sem hafði áunnist, glatast.   Það þurfa að vera valmöguleikar á húsnæðismarkaði eins og víðast annarsstaðar.  Á Íslandi eru engir valmöguleikar.  Búseti hefur gert veika tilraun til að vera valkostur á  húsnæðismarkaði, þar er miklu meiri eftirspurn en framboð.  Félagslega húsnæðiskerfið hefur algerlega lagst af og hinn almenni leigumarkaður er nánast glæpsamlegur.

Ég er alveg sammála þér með það að foreldrar barna verða að byrja að leggja fyrir strax við fæðingu barna sinna eigi það að vera raunhæfur möguleiki afkvæmanna að kaupa íbúð einhverntíman fyrir þrítugt.  Ég var ekki að segja að fólk eigi að fá afhenta lykla að íbúð eftir háskólanám, en eins og staðan er núna, fyrir þá sem sáu ekki fyrir þessa geysihækkun húsnæðisverðs, er ansi  strembið að eignast  þær 3-4 milljónir, sem þarf til.

sigurlaug anna (IP-tala skráð) 23.11.2007 kl. 10:13

5 Smámynd: Örvar Már Marteinsson

Það er alveg rétt að þetta er vandamál. Það eru hins vegar ekki til neinar töfralausnir á því, enda væri það þá varla vandamál. Oft gera töfralausnir stjórnmálamannanna bara illt verra eins og sjá má á stöðunni í dag. Sjálfstæðismenn gengust undir tillögur Framsóknar um 90%lánshlutfall - þeir hefðu átt að vita betur, en hlupu til - þetta átti einmitt að hjálpa ungu fólki, efnaminna fólki, einstæðingum og stúdentum, að komast út á markaðinn. Þetta varð til þess að verðið hækkaði svo mikið að 10 prósentin sem eftir urðu eru nú eins og ókleyfur veggur. Þetta er aðeins eitt af því sem hefur verið gert til að hjálpa til á markaðnum. Annað voru húsaleigubætur - þær áttu að hjálpa fólki á leigumarkaði sem var talinn brjálæðislega dýr. Útkoman var sú að húsaleigan hækkaði því sem nam bótunum, leigjandinn var í alveg sömu sporum en verðbólgan hækkaði. 

Ég veit að þetta veist þú Sigurlaug og er ekki að reyna að stríða þér. Málið er bara það að leiðin til glötunar er vörðuð góðum áformum. Þetta er erfitt og það virðist vera svo að þegar eitthvað er reynt að gera markaðinn manneskjulegri þá harðnar hnúturinn enn meir.

Geir hérna að ofan er rödd skynseminnar en hætt er við að hann yrði grýttur og hengdur upp í jólatré, ef hann kallaði þetta yfir hópinn á föstudegi í Kringlunni. Það er alveg spurning hvort neyslusiglingin sé ekki að sigla í strand. Ég er ekkert allt of bjartsýnn á það að sífelldur mínus á tékkareikningnum gangi upp til lengdar (þá er ég sennilega farinn að hanga eins og Geiri ). 

Það eru hins vegar alltaf einhverjir sem geta ekkert að sínu óláni gert. Sennilega þarf að vera eitthvert félagslegt úrræði til fyrir þá. Lausnin fyrir hina er svo aukinn kaupmáttur. Þar getur svo hringavitleysan byrjað: Kaupmátturinn er háður því að verbólgan éti hann ekki upp, verðbólgan heldur áfram að aukast ef auknu fjármagni er hleypt inn á markaðinn (til dæmis með ódýru lánsfé til að "hjálpa" markaðnum) og íbúðaverð hækkar. Lausnin fyrir hinn venjulega launamann er ansi súr - Verðbólgan verður að minnka, kaupmátturinn að aukast. Aðrar lausnir auka vandann!

Hinum sem harðast verða úti verðum við hin að hjálpa, sumum til skamms tíma öðrum örugglega lengur. Þá líst mér betur á félagslegar íbúðir (enda þótt ég viti að reynslan af þeim rekstri sé slæm) heldur en að hjálpa til með fjármagn. Húsnæðismarkaðurinn má ekki við meira fjármagni.

Ég veit að þetta er erfitt, en það hefur aldrei verið auðvelt - og verður það sennilega aldrei. Það er aftur á móti auðvelt að gera hlutin enn erfiðari.

Örvar Már Marteinsson, 23.11.2007 kl. 22:29

6 identicon

Þú ert þá sem sagt að segja að þetta sé vonlaust??  Það er aldeilis pólitík í lagi.  Ég les þá út úr pistli þínum að við séum föst í hringavitleysu, verðbólgu, ofurverðs á öllum hlutum, ofurvöxtum osfrv....  Það er alveg á hreinu að verð á almennum húsnæðismarkaði er ekki að fara að lækka!  Það myndu fjármálastofnanir aldrei samþykkja.

Það er sem sagt bjart framundan

Sigurlaug Anna (IP-tala skráð) 24.11.2007 kl. 10:46

7 Smámynd: Örvar Már Marteinsson

Pólitíkin hefur ekki alltaf lausnirnar. Húsnæðisverð mun sjálfsagt ekki lækka en mögulega mun hlutfallið milli launa og húsnæðisverð eitthvað skána - ef hægt er að hafa hemil á verðbólgunni, sem verður ekkert einfalt mál.

Það er ekkert endilega mjög bjart framundan.

Kveðja

Örvar Már Marteinsson, 25.11.2007 kl. 00:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband