Færsluflokkur: Bloggar

Ufsinn er seyðaryksuga

Það er algjörlega út úr kortinu að leggja til minni ufsaveiði. Ég þarf svosem ekki á miklum ufsakvóta að halda en málið er að ufsinn étur ekki bara fæðuna frá þorskinum heldur er hann sannkölluð seiðaryksuga. Þegar kemur fram í seinnipart júlí fer maður að fá ufsa sem er svo yfirfullur af steinbíts og þorskseiðum að þau hellast úr kjaftinum á honum þegar maður kippir honum inn fyrir borðstokkinn.

Það er eins og Hafró hugsi hlutina aldrei í samhengi.

Mín stöðumynd af ástandinu í hafinu er svipuð því sem LS er að senda frá sér. Ég færi amk í 180 þús tonn af þorski. Hann er út um allt. Það er heldur meira en venjulega af löngu á línuna og steinbíturinn er að veiðast í óvenju miklum mæli hér við Snæfellsnesið. Ástandið í sjónum virðist vera nokkuð gott og sandsílið hefur náð sér á strik í sumar hér í Breiðafirðinum.

Sjáiði bara: Það eru líka til góðar fréttirSmile


mbl.is Þorskaflinn verði 200 þúsund tonn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjómannadagshelgi í Ólafsvík

Sjómannadagshelgin í Ólafsvík fór mjög vel fram. Við áhafnirnar á Sverri, Glað, og Gunnari Bjarnasyni sáum um framkvæmd hátíðarinnar og ég held að það hafi gengið mjög vel. Veðrið átti auðvitað stóran þátt í góðri stemmingu og keppnisgreinarnar voru skemmtilegar og óhappalausar.

Það var ánægjuleg stund þegar nýju kappróðrabátunum var róið í fyrsta sinn. Því miður virðist sú keppnisgrein á undanhaldi víða og það var mér metnaðarmál að Ólafsvíkingar gætu keppt á nýju bátunum í ár. Það hefði verið leitt ef það hefði ekki tekist.

Sjómannadagshófið gekk einnig mjög vel. Maturinn var góður og fólk skemmti sér vel yfir bæði söngatriðum og dansatriðum.

Runni vinur minn hélt öfluga ræðu í Sjómannagarðinum og talaði hreina íslensku, eins og hans er von og vísa. Hann er einn af þessum stórlöxum sem eru alvöru stórlaxar, bæði í huga og hjarta. Ég þakka honum fyrir framlag hans til dagsins.

Við á Snæfellsnesinu erum heppin hvað við eigum öflugt fólk. Við megum sannarlega vera stolt og bera höfuðið hátt. Sjómannadagurinn er mikilvægur áminningardagur um það hverjir Íslendingar eru og tengslin við uppruna okkar mega ekki slitna.

Ég þakka öllum sem tóku þátt í hátíðarhöldunum. Þetta var góð helgi og það er gott að búa í Snæfellsbæ.


mbl.is Sólbjartur heiðraður í Ólafsvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar verðbólgan fór minnkandi...

InLoveÞeir eru algerar guðsgjafir vinstri mennirnir. Það var einmitt útlit fyrir það að lánin myndu hætta að hækka eins skart og að fólk sem var í hugleiðingum um að kaupa fasteignir gætu mögulega planað eitthvað fram í tímann - sem hefði kannski orðið til þess að frostið á fasteignamarkaðinum minnkaði - þá skoppa þeir fram á völlinn, fallistarnir í hagfræði 103 (hlýtur að vera) og keyra upp vísitölu neysluverðs. Verðbólgan upp, hærra og hærra...W00t

Ég æsi mig ekkert mikið yfir áfenginu og tóbakinu.. en skilja þeir ekki að bifreiðagjöld, olíugjald og vörugjald á bensín fer ekki aðeins út í verðbólguna heldur er þetta auk þess enn einn myllusteinninn um háls fyrirtækjunum og atvinnulífinu. Það virðist vera þeirra efsta mottó að gera fyrirtækjum og þeim sem búa til verðmæti og atvinnu lífið leitt.  Þeir hafa aldrei skilið hvernig hlutirnir virka.

Kommarnir hafa auðvitað alltaf haft horn í síðu fyrirtækja sem ekki eru í eigu og þjónustu ríkisins. Ef einhversstaðar er skapaður peningur halda þeir að hann hljóti að vera illa fenginn og með arðráni. Arðbær fyrirtæki vilja þeir mergsjúga, þar til þau gefast upp.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa gengið út á hefndaraðgerðir, ofsa gegn atvinnulífinu og draumóra. Nú bætist verðbólguinnspýting við aðgerðalistann.

Skilur fólk núna hvað vinstri stjórn þýðir?


mbl.is Áfengi og eldsneyti hækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vorönn lokið

Nú er loksins komin síðari einkunnin í hús. Gekk bara þrælvel, sérstaklega með tilliti til hás hlutfalls falleinkunna í námskeiðinu.

Það er gott að geta lokað á þetta. Á meðan einkunnir hafa ekki skilað sér er maður sífellt með hugann við þær, en nú er komið sumar.

Fór í fjallgöngu með stráknum mínum í morgun. Gengum á Hróann. Nutum vel fallegs útsýnisins yfir Breiðafjörðinn, inn eftir öllum firði og alla leið út á Öndverðanes.

Það er æðislega gaman að ganga á fjöll, vonandi verður meira um slíkt framundan.

Gleðilegt sumar


Vinnubrögð

Þegar eitthvað er vel gert ber að hrósa því, og hrósið í dag fær kennari við Háskóla Íslands, Alyson Bailes, sem kennir stjórnmálfræðinemum um öryggismál í hnattvæddum heimi (til dæmis um ógn af hryðjuverkum).

Ég var í lokaprófi hjá henni til hádegis í gær og einkunnirnar voru komnar núna um kvöldmat! Þetta sýnir svo ekki verður um villst að það er bara spurning um vinnubrögð og nennu hvort það taki fleiri fleiri vikur að skila af sér einkunnum. Taki þeir það til sín sem eiga það.

Nú er bara vonandi að einkunnir fari að berast úr hinu prófinu... sem ég tók 27 apríl.


Ég vissi þetta!

Mig tekur það auðvitað sárt en ég verð að segja ,,I TOLD U SO!!!"

Í þessari færslu hérna ,,VG mun lúffa" fór ég yfir niðurstöðuna í þessu máli. Ég vissi að Vinstri Grænir myndu lúffa og ég vissi að völdin væru þeim mikilvægari en prinsippin.

Það er þvílíkur endemis tvískinnungur og kjaftæði að segja: ,,Vindstri Grænir eru hlynntir því að Samfylkingin leiði okkur í aðildarviðræður,,,,en Vindstri Grænir eru samt voðalega mikið á móti því og halda því áfram"!

Það verður áhugavert að fylgjast með því hvernig þessi svik við kjósendur Vindstri Grænna verða fóðruð. 


mbl.is Ákvörðun um ESB í höndum þjóðarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhugaverð vefsíða og þakkir

Um leið og ég þakka öllum sem lögðu hönd á plóg í kosningabaráttunni vil ég vekja athygli á áhugaverðri vefsíðu sem ég rakst á.

Hún er hér: http://www.nrc.nl/international/article2160480.ece

Segir margt um stöðu þjóða þrátt fyrir Evrópusambandsaðild


AUÐUR ER RAUÐUR

Fréttir berast um það að í kosningunum ætli sér margir að skila auðu eða sitja heima. Það sé gert í þeim tilgangi að refsa stjórnmálamönnum fyrir að hafa ekki staðið vaktina sem skyldi.

Vera má að sú afstaða sé réttmæt að mörgu leiti. Hins vegar er ólíklegt að sá refsivöndur hitti þá sem skyldi. Líklegra er að með þeirri athöfn muni kjósendur taka út refsinguna á sjálfum sér eftir kosningar.

Með því að stuðla að hreinni vinstristjórn væri verið að kalla eftir aukinni skattlagningu, flóknara skattkerfi og auknu valdi stjórnmálamannanna. Það felst í því mikil þversögn að gefa frat í pólitíkina með því að stuðla að auknu valdi stjórnmálamanna!

Kjósum Sjálfstæðisflokkinn - XD

AUÐUR ER RAUÐUR


mbl.is Lokaorð formanna til kjósenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VG mun lúffa

Þetta mál getur ekki farið öðruvísi en svo að annar aðilinn muni gefa sitt upp á bátinn. Mitt mat er að það verði Vinstri Grænir. Af hverju?

1. Evrópusambandsaðild er aðalkosningamál Samfylkingarinnar. Aðild (og jafnvel aðeins aðildarviðræður) á að koma öllu hér í gott stand og koma Íslendingum að háborði Evrópuríkisins. Ég er kannski barnalegur en ég trúi því ekki að Samfylkingin þori að svíkja sína kjarnakjósendur með því að gefa eftir.

2. Vindstri Grænir munu gera allt til að hanga á valdastólunum. Þeir munu geta sannfært sína kjósendur um að vinstri stjórn - á grundvelli félagshyggju, réttlæti og heiðarleika, sé mikilvægari en að standa við sín kosningaloforð!

3. Ég gat ekki betur heyrt en að Svandís gæfi það í skyn að ein þjóðaratkvæðagreiðsla, eftir aðildarviðræður, myndi fullnægja hennar forsendum. Þetta væri allt spurning um samræður eftir kosningar.

4. Vinstri Grænir evrópusambandsandstæðingar geta ekki snúið sér neitt annað. Sjálfstæðisflokkurinn er of langt frá þeim á hægri - vinstri kvarðanum til þess að forystan þurfi að óttast flótta þangað.

Þannig að: Þeir verða stungnir í bakið og þeir eiga eftir að verja það sjálfir!

 Það er mín kenning!


mbl.is Trúi ekki að Samfylkingin láti stranda á ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattlagning landsbyggðarinnar

Enn er tekist á um fiskveiðistjórnunarkerfið. Á tímum sem þessum þegar þjóðin þarf á því að halda að auðlindir hennar séu nýttar á sem hagkvæmastan og arðbærastan hátt eru uppi hugmyndir um að kollvarpa núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. Hér verður bent á nokkrar staðreyndir:

Fiskveiðistjórnunarkerfið verður að uppfylla vissar kröfur:

Fiskveiðistjórnunarkerfið verður að stuðla að því að íslendingar geti um alla framtíð stundað fiskveiðar á Íslandsmiðum. Sjálfbærni fiskveiðanna er krafa númer eitt.

Í öðru lagi eiga íslendingar rétt á því að auðlind þeirra sé nýtt á sem arðbærastan hátt, bæði til lengri og skemmri tíma litið. Forðast verður sóun á verðmætum Íslands.

Núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi uppfyllir þessi skilyrði og hefur skilað þjóðinni mjög mikilvægum tekjum. Ekki hefur verið bent á kerfi sem uppfyllir skilyrðin betur og sjaldan eða aldrei hefur verið meiri þörf á því að fyrirtækin haldi áfram að veita atvinnu og skapa þjóðinni arð.

 

Því miður eru algerlega frjálsar veiðar ekki einu sinni valkostur og um það eru flestir sammála en allir aðrir valkostir fela í sér einhverskonar lokað kerfi. Hugmyndir hafa verið um svokallaða fyrningaleið, sem einnig má kalla Kvótaleigu Ríkisins. Ljóst er að sú leið er ekkert annað en sérstök skattlagning á landsbyggðina og aðför að þeim útgerðum, stórum og kannski sérstaklega smáum sem hafa verið að kaupa sig inn í greinina en um 90% kvótans eru í höndum manna sem hafa keypt hann á frjálsum markaði og borgað fyrir hann fullt verð.

Það er undarlegt en kemur mér þó ekkert sérstaklega á óvart að vinstri flokkarnir ætli nú að grípa til þess að skattleggja landsbyggðina sérstaklega. Þeir treysta á stuðning höfuðborgarsvæðisins hvort sem er.

Það má líka velta því fyrir sér hverjir muni geta leigt kvótann frá Kvótaleigu ríkisins þegar öll fyrirtækin eru komin inn á leigumarkaðinn. Verða það smáfyrirtækin sem geta borgað hámarksleigu, nýliðar sem þurfa að koma undir sig fótunum eða verða það frekar risastóru fyrirtækin? Hafa svokallaðir jafnaðarmenn velt því fyrir sér?

Svokölluð fyrningaleið á að taka allt að 20 ár. Hafa svokallaðir jafnaðarmenn velt því fyrir sér hvernig viðskipti með kvóta eiga að fara fram á þeim tíma? Hver vill lána fyrir einhverju sem rýrnar um 5% á ári? Eða á kannski ekkert að vera nein nýliðun næstu 20 árin?

 

Reglulegar yfirlýsingar Samfylkingar og Vinstri Grænna um slíkar leiðir hafa átt stóran þátt í því þegar menn selja kvóta og hætta í útgerð því menn hafa ekki þorað að eiga á hættu að veiðiheimildir þeirra séu teknar af þeim og þeir látnir sitja eftir með skuldirnar. Þessir flokkar bera því mikla ábyrgð.

 

Hugmyndir Samfylkingar og Vinstri Grænna um fiskveiðistjórnunarkerfi eru annað hvort algerlega vanhugsaðar eða hrein og klár aðför að landsbyggðinni, eða bæði.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband