Kvótinn

Í Blaðinu í dag er svargrein mín við viðhorfsgrein Björgvins Sigurðssonar þingmanns frá því í síðustu viku. Hér er viðbót.

Grein Björgvins er í raun samantekt á frösum og upphrópunum sem notaðar hafa verið gegn kvótakerfinu og eiga það til að hitta í mark vegna þess að fólk hefur ekki fyrir því að kanna sannleiksgildi þeirra. Björgvin styður upphrópanir sínar m.a. með því að segja samfélagsgerðina hafa breyst við tilkomu kvótakerfisins.

Björgvin er sniðugur maður að blanda staðreyndum inn í upphrópanirnar sem að öðru leyti standast illa skoðun. Þannig lætur hann lesandann fá það á tilfinninguna að þessu sé hægt að samsinna. Það er nefnilega vissulega satt að samfélagsgerðin breyttist í kjölfar kvótakerfisins. Það hefði gerst hvort sem var. Það stefndi víða í gjaldþrot og auðlindin var ofnýtt. 

Satt er að fólksflótti af landsbyggðinni hefur verið mikill. Hins vegar þarf líka að taka með í reikninginn hvað hefði gerst hefði kvótakerfinu ekki verið komið á. Þar eru tveir vinklar:

1.      Kvótakerfinu var komið á eftir að Hafrannsóknarstofnun, sem er vísindalegur ráðgjafi ríkisins, varaði við hruni þorskstofnsins. Hefði ekkert verið gert blasti við hrun í fiskistofnunum og ekki er hægt að búast við að byggðirnar hefðu farið betur út úr því. Þá hefðu allar byggðirnar týnt grundvelli sínum. Með kvótakerfinu gátu mörg þó lifað af, enda þótt sú barátta hafi verið erfið.

2.      Síðustu árin fyrir kvótakerfið stóðu útgerðarfyrirtæki og fiskvinnslur á landsbyggðinni mjög illa. Þau lögðu kostnað hvert á annað og reksturinn var í járnum. Neyðarreddingar voru daglegt brauð og því má segja að sjávarútvegurinn hafi verið ríkisstyrktur. Í því umhverfi hefðu byggðirnar ekki heldur haft neinn grundvöll og með fyrirtækin öll á kúpunni hefði fólksflóttinn varla orðið minni.

Auk þessa ber að geta þess að landsbyggðarflóttinn er búinn að vera viðvarandi síðan Ísland iðnvæddist um þarsíðustu aldamót. Vandamálið varð ekki til þegar kvótakerfi var innleitt í sjávarútvegi. T.d. kom fram fyrsta byggðaáætlun Vestfjarða árið 1963 sem miðaði að því að stöðva brottflutning úr landshlutanum. Vandanum var bara slegið á frest með því að drita niður togurum sem víðast á árunum milli 1970 og 1980. Það setti svo fiskistofnana í stórhættu.

Ein upphrópunin er að sumar byggðir hafi notið meiri kvótaeignar og að þetta hafi verið gjafakvóti. Hið rétta er að það var ekki verið að gefa mönnum kvóta heldur var verið að skerða tækifæri allra í sjávarútveginum til að veiða fisk. Þegar kvótakerfið var sett á máttu menn veiða minna en þeir höfðu gert. Það var öll gjöfin. Kvótanum var útdeilt í hlutfalli við veiðireynslu og því fengu byggðirnar allar minni veiðiheimildir en þær höfðu.

Björgvin Sigurðsson segir örfáa hafa fengið yfirráð yfir hinni sameiginlegu auðlind og að mesta eignatilfærsla sögunnar hafi átt sér stað.

Þetta eru mjög kunnuglegir frasar en að sama skapi með mjög hæpið sannleiksgildi. Um þessa ofsalegu eignartilfærslu má segja að þegar tekið var upp kerfi með framseljanlegan kvóta var bullandi tap í sjávarútveginum.Þessi eignartilfærsla var því tilfærsla á tapi, eða neikvæðri eign. Það höfðu hins vegar of margir verið að nýta auðlindina, með óhagræði fyrir alla.

 Smátt og smátt tókst að snúa vörn í sókn vegna hagræðingarinnar sem fylgdi framsalinu og sjávarútvegurinn fór að skila hagnaði í staðinn fyrir tapi. Þetta finnst jafnaðarmönnum sjálfsagt hin mesta hneysa og dettur manni þá í hug mögulegur skyldleiki við menn sem vilja reka auðuga menn úr landi til að auka jöfnuðinn. Staðreyndin er sú að það er kvótakerfinu og frjálsa framsalinu að þakka (eða að kenna, fyrir þá sem þannig hugsa) að sjávarútvegurinn stendur undir sér sjálfur.

 

Ekkert hefur enn komið fram sem er betra en núverandi kerfi. Átti á sínum tíma að leyfa ótakmarkaðar veiðar og láta fiskistofnana hrynja? Hefði það komið byggðunum betur? Hefði það verið sanngjarnara og réttlátara?

Átti að leyfa ótakmarkaðar veiðar og láta arðsemina vera neikvæða með tilheyrandi gjaldþrotum? Hefði það komið byggðunum betur eða verið sanngjarnara og réttlátara?

Átti að banna mönnum að selja kvóta? Hvernig átti þá að vera hægt að kaupa kvóta og byrja í greininni? Hvernig átti að vera hægt að fækka skipum ef menn gátu ekki selt sig út úr greininni? Hefði verið sanngjarnara að banna kvótaleiguna eða bremsa hana á einhvern hátt? Hvernig áttu menn þá að fara að sem áttu þorskkvóta en lentu í því óhappi að fá ýsu með í veiðarfærin? Átti þá að henda ýsunni? Landa henni fram hjá vigt?

Kerfið er örugglega ekki fullkomið en hvað er skárra?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fannar frá Rifi

góð grein. 

En eins oft heyrist frá stjórnarandstöðu þá er mikið um gagnrýni og lítið um svör. Það á að breyta öllu til hins betra en þegar spurt er hvað þetta betra er þá heyrist ekki orð. Málið með kvótakerfið í dag er að það skapar auð. Vandamálið með auð er að margir verða öfundsjúkir út í hann og vilja gera allt til þess að klekkja á þeim sem eitthvað eiga. Var það ekki Jónas frá Hriflu sem gagnrýndi kaupmann einn í Reykjavík svo mikið snemma á síðustu öld að hann sá sér ekki annan kost en að gefa eigur sínar og hengja sig síðan á eftir. 

Það er eitt kerfi sem hefur verið nefnd til að koma í staðinn fyrir núverandi kerfi. Það er fyrningarleiðin. Eignarupptaka hefur alltaf verið vinsæl hjá ákveðnum einstaklingum. Vitlausari hugmynd hef ég ekki en heyrt. Leið til þess að koma á algjörri stöðnun í sjávarútvegi  því bankar lána ALDREI fé til greinar þar sem eignar upptaka er í gangi.

Önnur skemmtileg hugmynd er að allur fiskur fari á uppboð á markaði. ég skal ekki neita því að þetta myndi bæta hag sjómanna og auka stórlega við laun þeirra, tímabundið. En þetta myndi hinsvegar leiða til þess að öllum fastráðnum starfsmönnum sjávarútvegsfyrirtækja yrði sagt upp. Afhverju? Því það yrði ekki lengur tryggt að fyrirtækið gæti útvegað fisk alla daga og afhverju að borga fólki laun í heilan mánuð ef það verður bara unnið í tíudaga. það bara borgar sig ekki. Einnig myndi þetta koma mikið niður á gæðum. Veiddur fiskur er ekki það sama og veiddur fiskur. Hvort hann sé veiddur í net, á línu, á færi eða nót. það er mikill munur á því hversu mikil gæði fiskurinn heldur. Sjávarútvegs fyrirtækinn myndu þannig missa það traust sem þau hafa á erlendum markaði sem myndi leiða til lægra verðs fyrir fiskinn. Þetta myndi skila sér beint til sjómanna því fyrirtækinn hefðu ekki efni á því að borga hátt verð og þannig myndi það á endanum verða til þess að kjör sjómanna myndu skerðast. 

Margar byggðir hafa farið illa útúr kvótakerfinu. það er alveg satt. En ég spyr þessarar beinskeittu spurningar. Er raunverulegur grunndvöllur byggðar fyrir öllum smá sjávarþorpum úti á landi? Ef við ættum að halda lífi í öllum byggðum við hvað eigum við að miða? Öllu því sem var í byggði 1986? eða öllu því sem var í byggð 1906? Það er bara staðreynd að fólk vill ekki búa í sumum smábæjunum. hvort sem þar er vinnu að fá eða ekki. Flótti á mölina er óhjákvæmilegur fylgifiskur iðnvæðingar. 

Versti óvinnir hina litlu sjávarplássa og lítilla fyrirtækja í sjávarútvegi eru þingmenn og þingmannaefni sem koma á 4 ára fresti og vilja umturna öllu. Þessir menn hafa gert þeim sem þeir segjast vera að berjast fyrir meiri grikk heldur en nokkurn tíman gagn. Þeir eru ástæðan fyrir því að einyrkjum í útgerð fækkar. Fyrir hverjar einustu kosningar hugsar stór hluti útgerðarmanna hvort að eftir þessar kosningar muni allt breytast og þeir muni tapa öllu. Sumir þora bara ekki taka áhættuna og selja sig útúrkerfinu og flytja í bæinn. 

Þið talsmenn uppstokkunar og gjörbreytinga í sjávarútveg, eruð verstu óvinnir allra þeirra sem hafa lifbrauð sitt á af gæðum hafsins.  

Fannar frá Rifi, 22.3.2007 kl. 12:17

2 Smámynd: Eggert Hjelm Herbertsson

Sæll Örvar,

Þið sem styðjið núverandi ríksstjórnarflokka reynið alltaf að verja ykkar málstað með því að gera lítið úr þeim sem vilja breytingar á núverandi kerfi. Af hverju er 80-90% þeirra sem búa í okkar kjördæmi (70% af þjóðinni í heild), Norðvesturkjördæmi, óánægt með kvótakerfið? Þó að þú sért greinilega sáttur þá er fólk það almennt ekki.

Þegar Björgvin talar um eignartilfærslu, þá vil ég benda þér á að mesta óréttlætið í þessu var að útverðarmenn fengu allan rétt á að fara með þessa auðlind, ekki fiskvinnslan, sjómennirnir eða bæjarfélögin, sem byggðu þessa atvinnugrein upp ásamt útgerðarmönnum.

Flótt af landsbyggðinni, þá ekki síst Vestfjörðum (ef ég man rétt ert þú ættaður þaðan), er helst sjávaútvegskerfinu, samgöngum, auknum flutningskostaði og lélegum fjarskiptum að kenna. Þetta er allt hlutir sem hið opinbera getur haft áhrif á.

Það er enginn að tala um að það þurfi ekki stýringu á veiðum (einhverskonar kvótakerfi) um það snýst ekki málið. En einnig gott að benda þér á að fyrir tíð kvótakerfisins (og tíma EES), þá var fiskverð ekki fjálst, það var ákveðið af hinu opinbera. Það máttu bara ákveðnir aðilar flytja fisk út. Þetta er hin raunverulega skýring á því að sjávarútvegur gekk ekki vel á þessum tíma. Þetta breyttist með inngöngu okkar í EES. Ekki með kvótakverfinu.

Ég er fæddur og uppalinn í sjávarplássi og því sjávarútvgsmál mér alltaf hugleikin, þó svo að ég hafi skipt um vettvang fyrir 9 árum síðan. Ég bendi þér á 2 blogg færslur mínar um sjávarútvegsmál, þar sem ég hef lengi verið að greina hvað það er sem betur má fara í kerfinu, án þess að taka of miklar áhættur með þennan grunnatvinnuveg okkar.

PS. Ég sé að þú titlar þig sjómann í greininni í blaðinu, en skipstjóra á lista Sjálfsstæðisflokksins. Af hverju gefur þú ekki upp að þú ert í framboði þegar þú ert í pólitískum ritdeilum rétt fyrir kosningar?

Eggert Hjelm Herbertsson, 23.3.2007 kl. 16:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband