Um miðstýringu frá miðbæ Reykjavíkur

Það er undarlegt að á meðan rætt er um mikilvægi markvissrar og árangursríkrar byggðastefnu er aftur og aftur reynt að auka á samþjöppun valds og útþenslu ríkisbáknsins í Reykjavík.

Nú eru uppi hugmyndir í Menntamálaráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur um sameiningu Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskóla Íslands. Það myndi þýða að yfirstjórn Landbúnaðarháskólans yrði í Vatnsmýrinni. Fjölgun opinberra starfa í Reykjavík en fækkun í Norðvesturkjördæmi. Slík sameining yrði til þess að Hvanneyri yrði eins konar ósjálfstæð útstöð og hætt væri við að hún missti brátt það frumkvæði og kraft sem hefur einkennt Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Ég tel mig knúinn til að vara við aukinni miðstýringu.

Ég hef öðlast vissa reynslu af sjálfstæðum stofnunum á háskólastigi. Ég er stjórnarformaður Varar, sjálfstæðs rannsóknarseturs um lífríki sjávar og er einn af stofnendunum. Að koma slíkri stofnun á legg hefur alls ekki verið einfalt mál en hefur lánast ekki síst fyrir tilstilli dugmikils forstöðumanns, Erlu Bjarkar Örnólfsdóttur og góðs starfsfólks. Það þarf samt svo sannarlega að gera  vissar breytingar til að auðvelda sjálfstæði slíkra stofnana frá ríkisvaldinu. Tilvist Varar hefur leyst úr læðingi gríðarlegan kraft,  fjölgað störfum á háskólastigi innan kjördæmisins og rannsóknirnar sem þar eru stundaðar hafa mjög mikla þýðingu fyrir sjávarútveginn og vísindastarfið í heild sinni. Það er ekki síst að þakka staðsetningunni, á Snæfellsnesi í algeru návígi við viðfangsefnið, hafið en í hæfilegri fjarlægð frá höfuðborginni. Með slíkum, sjálfstæðum, einingum næst að virkja frumkvæði fólks og sköpunarkraft og það er einmitt það sem mest á ríður á Íslandi í dag.

Að gera Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri að Landbúnaðarháskóla í Vatnsmýrinni með starfstöð á Hvanneyri væri stórt skref í alranga átt og ég vara eindregið við því.

Það er í raun með miklum ólíkindum að þensla ríkisbáknsins skuli alltaf þurfa að vera á höfuðborgarsvæðinu og mætti segja mér að ágætis ráð til að hemja þá útþenslu væri að skilyrða hana við landsbyggðina. Það myndi slá tvær flugur í sama högginu: draga úr þenslu ríkisvaldsins og væri varnarleikur í byggðaþróuninnni.

En ágætis byrjun væri þó að hætta að færa störf frá okkur og til Reykjavíkur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Kr. Sigmundsson

Sammála þér Örvar, þessi tilhneiging til miðstýringar er vond.  Góð grein.

Helgi Kr. Sigmundsson, 2.3.2009 kl. 23:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband