Færsluflokkur: Bloggar

Þjóðareign

Ég hef verulegar efasemdir ennþá hvað varðar auðlindaákvæðið í stjórnarskránni. Ég vona bara að menn hafi gæfu til að gera hlutina almennilega því hér verður að vanda til verka. Ég tjáði mig um ástæður þess að ég er ekki ánægður með að hafa þetta í stjórnarskrá í síðasta bloggi mínu en nú er enn ein ástæðan komin í kollinn á mér. Slíkt ákvæði mun festa taugatitring manna í greininni í sessi. Sjávarútvegurinn þarf á langtímastöðugleika að halda. Um er að ræða fjárfestingar manna upp á tugi og hundruði milljóna, líka hjá einyrkjunum. Fjórða hvert ár þurfa menn í greininni að spyrja sig: Mun ríkið hirða fjárfestinguna til sín? Verður öllu umturnað? Þetta skaðar greinina.

Menn þurfa að stíga verulega varlega til jarðar þegar greinargerðir og nefndarálit verða búin til. Þessi undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar þarf á stöðugu umhverfi að halda. Aðeins þannig hámarkar þjóðin arð sinn af þjóðareigninni.


10 mínútum í kosningar

Sjálfur var ég á móti því að setja ákvæði um sjávarauðlindir í stjórnarskrá þegar stjórnarsáttmálinn var birtur. Það eru fleiri en ein ástæða á bak við það.

Í fyrsta lagi tel ég slíkt ákvæði bjóða hættunni heim þegar vinstri stjórn kemst hér að (sem einhvern tím mun gerast). Það er engin leið að vita upp á hvaða fíflagangi yrði þá tekið en með slíkt ákvæði í stjórnarskrá fengju þeir vopn í hendurnar til að þjóðnýta auðlindina. Ég segi ekki að það muni gerast en a.m.k. yrðu þeir skrefinu nær því.

Í öðru lagi tel ég að stjórnarskráin eigi ekki að vera plagg með slíkar klausur. Stjórnarskráin á að vera vörn okkar borgaranna fyrir ríkisvaldinu og mögulegu ofríki og gerræði þess. Þar á að vera fjallað um stjórnskipunina (þyrfti þó að vera á skýrari hátt en nú er gagnvart forsetaembættinu), skiptingu valdsins og mannréttindi. Ég sé ekki af hverju þarf að vera sérklausa um sjávarútveg í stjórnarskrá umfram aðra náttúrunýtingu. Af hverju þá ekki einnig um fjárbúskap? Nú bíta rollur gras upp um öll fjöll sem allir eiga saman eða enginn eigandi er að. Er það ekki líka nýting á sameiginlegri auðlind. Svona er hægt að teygja þetta og toga.

Í þriðja lagi tel ég ýmsa vankanta á sameignarfyrirkomulagi yfirleitt. Fyrst og fremst gagnvart rekstrarlegum sjónarmiðum en kannski ekkert síður þegar kemur að verndun umhverfisins og sóun auðlinda. Það er staðreynd að það sem allir eiga hugsar enginn um. Ég tel einnig að þjóðin hafi best af því að sjávarútvegurinn blómstri og það tel ég að gerist bara fái menn í greininni til þess svigrúm og frið eins og má lesa hérna. Það mætti mikið frekar selja mér hugmynd um að binda íslenskt eignarhald á auðlindinni í stjórnarskrá, en þó ekki vegna ofangreindrar skoðunnar minnar á eðli stjórnarskrárinnar.

Ég er þó þeirrar skoðunar að stjórnarflokkarnir verði að leysa þetta mál farsællega sem fyrst. Sjálfstæðisflokkurinn á ekki að víkjast undan samkomulagi sem hann hefur gert (hvort sem ég er sammála því eða ekki). Mér finnst þetta upphlaup frammaranna þó vera að vissu leiti lúalegt. Hefðu þeir viljað þá gætu þeir verið búnir að koma þessu í gegn fyrir löngu. Þeir höfðu valdamesta embætti landsins um tíma og þeir höfðu formennsku í stjórnarskrárnefndinni. Þetta er því bara enn eitt spriklið. Það er bara svolítið fyndið að þeir ætli nú að ná sér í óánægjufylgi þeirra sem eru ekki sáttir við fiskveiðistjórnunarkerfið sem Framsóknarmenn eiga sjálfir töluverðan heiður af. Þetta er hálf augljóst trikk svona tíu mínutum fyrir kosningar (það er svo langt síðan að farið var að nota frasann "korter í kosningar" að nú hlýtur tíminn að vera styttri). Ég óttast bara að þetta verði gert í einhverjum flýti núna en við þetta má alls ekki kasta til höndunum ef þetta fer í gegn á annað borð.

Gerum þetta skynsamlega og vel. Það er eitthvað sem þjóðin á skilið.


mbl.is Formenn og varaformenn stjórnarflokkanna funda um auðlindamálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valgerður og enskumælandi skóli

LoLÞetta er í sjálfu sér ekkert slæm hugmynd. Það væri þó mun betur við hæfi að þessi skóli væri einkarekinn heldur en að bæta enn meir í ríkisbáknið. Það er líklegra að skólinn lagaði sig að þörfum neytenda sinna, væri hann einkarekinn heldur en ef hann væri ríkisrekinn. Ríkið gæti vissulega stutt þetta verkefni og sett inn í það einhverja hvata en ég held að ríkið ætti ekki að reka slíkan skóla. Það er líka spurning um hvernig þetta snertir jafnræði. Nú eru grunnskólarnir á könnu sveitarfélaganna og margir skólar úti á landi veita börnum erlends vinnuafls (fiskverkafólks/verkafólks) þjónustu. Ætlar Valgerður að veita þessum fyrirtækjum úti á landi sömu þjónustu? Verður þá ríkisrekinn skóli fyrir útlensk börn en sveitarfélagsrekinn skóli fyrir þau íslensku? Nei. Ríkið á ekki að standa í þessu. Það er örugglega til góða að slíkur skóli sé starfræktur en ekki ef það er beinlínis af ríkinu.

Förum rólega í að stækka ríkisbáknið nógu þungt er það fyrir.

P.S. Það er spurning hvort Valgerður komi til með að skerpa á enskunni í slíkum skólaGrin


mbl.is Hugmyndir um alþjóðlegan skóla á Íslandi þar sem námsefni yrði á ensku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auglýsing eða hótun?

Var að fletta í gegn um bæjarblaðið okkar hér í Snæfellsbæ og rakst á orðsendingu svo hljóðandi:

Íbúar Snæfellsbæ athugið. Við munum mála bæinn rauðan 10. mars nk. Takið daginn frá. Samfylkingin Snæfellsnesi. Samfylkingin.

Ég veit ekki alveg hversu rótt mér má vera. Þarf ég að fara að kaupa 10 lítra af terpentínu til að vera viðbúinn árásinni? Hvað ef ég vil nú ekkert hafa bæinn rauðann? Er þetta hótun um skemmdarverk eða bara svona svakalega frumlega orðuð auglýsing? Veit ekki. Alla vega mætti segja mér að niðurstaðan verði svipuð, hvort heldur sem meint er.Frown


Sprikl og kippir

Siv hótar stjórnarslitum.

Þetta er nokkuð merkilegt en sennilega mátti búast við þessu í þróun síðustu vikna. Framsóknarflokkurinn virðist berjast um á hæl og hnakka og er það skiljanlegt miðað við fylgishorfur hans. Það er verst að það er ómögulegt að spá fyrir um hvað komi upp næst. Búið er að hækka lánaprósentu Íbúðalánasjóðs þrátt fyrir að verið sé að reyna að slá á þensluna. Þetta heitir að reyna að slökkva eld með annarri hendi en kynda svo undir honum með hinni. Formaður Framsóknarflokksins lofar auðlindasjóði þar sem sérstakur auðlindaskattur á allt og ekkert á að innheimtast til leiðréttingar á þeirri ósanngirni að menn skuli geta grætt á landareign sinni. Úr umræddum sjóði á svo að greiða öllum æðislega mikinn arð en megnið af fjársjóðnum á samt að nota til "ýmissra þjóðþrifaverkefna" að sögn formannsins. Hljómar þetta ekki vel og skilvirknislega??

Svona sprikl er auðvitað fáránlegt og minnir á fárveika manneskju þar sem engin leið er að vita hvaða útlimur kippist upp og slengist út næst. Allt í einu kemur fótur, síðan kannski hönd, og ryður niður öllu í kringum sig.

Slakið aðeins á, það erum við hin sem borgum.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband