Færsluflokkur: Bloggar
24.4.2007 | 11:50
Á að breyta bara til að breyta?
Eigum við að breyta bara til að breyta? Áróður um að Sjálfstæðismenn séu orðnir þreyttir er enn farinn að láta á sér kræla enda er oftar en ekki gripið til þess frasa þegar málefnastaða vinstri manna er vonlaus. Af hverju á að breyta? Er staðan virkilega svo góð að við getum leyft mönnum sem staðið hafa á móti hverju framfaramálinu á fætur öðru fyrir stjórnartaumunum? Sú staða er Sjálfstæðismönnum að þakka. Líta vinstri stjórnmálamennirnir svo á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi gert stöðuna svo góða að nú hafi sósíalistarnir frítt spil? Ætla þeir þá að nýta sér góðærið sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur skapað? Í aðra röndina fárast þeir yfir þeim aðgerðum sem hafa skilað okkur mjög vel stæðum ríkissjóði og í hina röndina keppast þeir um kosningaloforð sem byggja á þessari góðu stöðu. Kosningaloforð sem eru reyndar þannig að ef öll eru samantekin verður ríkissjóður rjúkandi rúst.
Eigum við að breyta til þess að hækka skattana aftur? Eigum við að breyta til þess að snúa einkavæðingunni við? Einkavæðing ríkisbankanna fer einstaklega mikið í taugarnar á vinstri mönnum. Fyrir einkavæðingu þurfti ríkissjóður oft að styrkja bankana. Nú skila þeir tugum milljarða í skatttekjum. Fyrir þá peninga er t.d. hægt að halda úti öflugu menntakerfi. Eigum við að snúa því við? Láta þann kostnað lenda á vinnandi fólki sem er að koma undir sig fótunum? Sagan sýnir að álögur hins opinbera hækka á tímum vinstri stjórna en lækka aldrei nema Sjálfstæðisflokkurinn eigi hlut að máli. Sagan sýnir að þó vinstri menn reyni að takast á við vandamálin þá eru það lausnir Sjálfstæðismanna sem virka. Það er bara þannig.
Dæmi um vinstri stjórn sem er ekki mjög gamalt:
Í tólf ár fengu Reykvíkingar að kynnast vinstristjórn í framkvæmd þegar R-listinn sat hróðugur í ráðhúsinu. Sá tími einkenndist af skattahækkunum og stórfelldri skuldasöfnun borgarinnar. Það er bara þannig.
Verkefnin eru fjölmörg framundan og víða má bæta ástandið. Ef svo væri ekki væru stjórnmálamennirnir atvinnulausir, sama í hvaða flokki. Vinstri menn geta eytt fullt af pening í lausnir sem virka ekki en sagan sýnir að Sjálfstæðisflokknum er best treystandi fyrir úrlausnum sem virka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.4.2007 | 17:29
Kominn aftur
Loksins kominn aftur í samband. Einhver vinstri vírus var búinn að hreiðra um sig í tölvunni en hann hefur nú verið lagður að velli.
Alls konar blogg urðu aldrei til frekar en fræin sem urðu aldrei blóm. Hefði viljað blogga um frábæran landsfund Sjálfstæðisflokksins, frábært páskafrí ofl. ofl.
Framundan er lokasprettur í kosningabaráttu með próflestursívafi. Þessi lokasprettur verður líka frábær.
Kærar þakkir til ykkar allra sem studduð mig á landsfundinum (ég er rétt að koma niður á jörðina núna).
Brettum upp ermar. XD
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.4.2007 | 11:43
Yndislegur sunnudagur í yndislegri náttúru
Enn er bræla. Það er mokfiskirí ef maður bara kemst á sjó, það er bara svo sjaldan. Nú er komið hrygningarstopp á grunnslóðinni og því þarf að sækja lengra. Annars hefur fiskgengdin verið lygileg síðasta mánuðinn. Brælurnar hafa þó sínar góðu hliðar.
Átti yndislegan frídag í gær. Fór í sunnudagaskólann með fjölskyldunni eins og alla sunnudaga sem ég er í landi og tók mér svo frí frá lærdómnum til að fara í reiðtúr með fjölskyldunni inni í Stykkishólmi. Ég hef reyndar ekki farið á hestbak í tvö ár en þetta virðist vera eins og að hjóla, maður er fljótur að ná þessu aftur. Ég hefði vel getað hugsað mér að vera á baki í aðra tvo tíma en er feginn því í dag að hafa haft vit á því að stoppa, á erfitt með að finna góða stellingu til að sitja.
Stundum er því ágætt að ekki sé sjóveður. Er eiginlega feginn því líka í dag. Þarf að koma lærdómnum á rétt strik til að geta notið þess að fara í páskafrí. Eftir páska verður tíminn til lærdóms eitthvað í knappara lagi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.4.2007 | 12:33
Afstöðuleysi Samfylkingarinnar
Ég fæ ekki séð að nein sérstök þáttaskil hafi orðið nema kannski þau að kjörnir fulltrúar geti nú tekið upp á því að kasta frá sér allri ábyrgð. Til hvers er þá verið að kjósa þá og greiða þeim laun. Þáttaskilin í "langvarandi deilum um virkjanastefnu og efnahagsstefnu" eru engin. Það hefur hins vegar orðið deginum ljósara hversu mikið skoðanir eru skiptar í þessum efnum. Niðurstaðan gæti varla verið óskírari. Örfá atkvæði réðu úrslitum. Ef einhvern tíma er hægt að segja að meirihlutinn kúgi minnihlutann þá er það núna.
Ég tek það fram að ég myndi segja það sama hefði álverið verið samþykkt með þetta litlum mun. Það er fátt verra en svona úrslit. Deilurnar og sárindin hafa minnstan möguleikann á því að jafnast við þetta nauman meirihluta. Slæmt mál.
Að mörgu leiti er ég hins vegar ekkert ósáttur við úrslitin. Þetta eykur möguleikana á því að byggja upp atvinnulífið úti á landi, t.d. Húsavík, þar sem meiri þörf er á auknum umsvifum heldur en á SV. horninu þar sem þenslan er hvort sem er hvað mest. Ég skil aftur á móti ósköp vel þá Hafnfirðinga sem eru ósáttir nú. Þeir eru að missa spón úr aski sínum.
Úrslitin eru allavega ekki góð fyrir Hafnfirðinga. Þeir sem höfnuðu álversstækkuninni hefðu þurft mikið meiri mun til að geta verið algerlega ánægðir og þeir sem kusu með stækkuninni verða að þola kúgun af hendi mjög naums meirihluta.
Þetta skrifast klárlega á Samfylkinguna sem getur ekki tekið skíra afstöðu í þessu fremur en öðru.
![]() |
Ögmundur: Þáttaskil í deilum um virkjanastefnu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.3.2007 | 00:04
camparifylgi
Samfylkingin er eins og Campari:
Rauð, bitur og nær ekki 22%
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.3.2007 | 22:39
Þegar það hentar...
Var að rekast á dálítið verulega skemmtilegt. Formaður Vinstri Grænna hefur lýst yfir eindregnum stuðningi við stóriðju á Húsavík og virkjanir í kring. Það má sjá hérna..
Smá forskot samt: Í fréttinni segir nákvæmlega:
Þá lýsti Steingrímur J. Sigfússon yfir eindregnum stuðningi við það að nýta jarðhitasvæðin í nágrenninu fyrir orkufrekan iðnað á Húsavík og nafngreindi hann sérstakalega Þeistareyki og jarðhitasvæðin í Mývatnssveit.
Eins og 11/11: á góðu verði þegar þér hentar........
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.3.2007 | 21:48
Tvær söguspurningar
Þetta verður áhugavert að lesa þótt ég sé sammála Bryndísi Ísfold á blogginu hennar að skoðun Geirs komi ekki á óvart.
Geir er skynsamur.
Vinstri grænir og Samfylking er klárlega versti kosturinn sem bíður okkar í vor. Ekki það að þau eru áreiðanlega öll af vilja gerð og telja sig vita best hvernig eigi að bæta Íslenskt þjóðfélag.
Stalín vissi líka best hvernig ætti að bæta það þjóðfélag sem hann stjórnaði. Þegar fólk er farið að tala um að kjósendur hafi rangar skoðanir og það verði að kenna þeim að hafa "réttar skoðanir" eins og skein í gegn hjá frambjóðanda VG á fundi gegn Íraksstríðinu um daginn, þá fer manni ekki að lítast á blikuna.
Tvær söguspurningar: Hvaða vinstri stjórnum hefur tekist vel upp á Íslandi??? Af hverju ættu vinstri flokkarnir frekar geta unnið saman nú frekar en áður??
![]() |
Geir H. Haarde telur samstarf Samfylkingar og VG versta kostinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
22.3.2007 | 09:26
Kvótinn
Í Blaðinu í dag er svargrein mín við viðhorfsgrein Björgvins Sigurðssonar þingmanns frá því í síðustu viku. Hér er viðbót.
Grein Björgvins er í raun samantekt á frösum og upphrópunum sem notaðar hafa verið gegn kvótakerfinu og eiga það til að hitta í mark vegna þess að fólk hefur ekki fyrir því að kanna sannleiksgildi þeirra. Björgvin styður upphrópanir sínar m.a. með því að segja samfélagsgerðina hafa breyst við tilkomu kvótakerfisins.
Björgvin er sniðugur maður að blanda staðreyndum inn í upphrópanirnar sem að öðru leyti standast illa skoðun. Þannig lætur hann lesandann fá það á tilfinninguna að þessu sé hægt að samsinna. Það er nefnilega vissulega satt að samfélagsgerðin breyttist í kjölfar kvótakerfisins. Það hefði gerst hvort sem var. Það stefndi víða í gjaldþrot og auðlindin var ofnýtt.
Satt er að fólksflótti af landsbyggðinni hefur verið mikill. Hins vegar þarf líka að taka með í reikninginn hvað hefði gerst hefði kvótakerfinu ekki verið komið á. Þar eru tveir vinklar:
1. Kvótakerfinu var komið á eftir að Hafrannsóknarstofnun, sem er vísindalegur ráðgjafi ríkisins, varaði við hruni þorskstofnsins. Hefði ekkert verið gert blasti við hrun í fiskistofnunum og ekki er hægt að búast við að byggðirnar hefðu farið betur út úr því. Þá hefðu allar byggðirnar týnt grundvelli sínum. Með kvótakerfinu gátu mörg þó lifað af, enda þótt sú barátta hafi verið erfið.
2. Síðustu árin fyrir kvótakerfið stóðu útgerðarfyrirtæki og fiskvinnslur á landsbyggðinni mjög illa. Þau lögðu kostnað hvert á annað og reksturinn var í járnum. Neyðarreddingar voru daglegt brauð og því má segja að sjávarútvegurinn hafi verið ríkisstyrktur. Í því umhverfi hefðu byggðirnar ekki heldur haft neinn grundvöll og með fyrirtækin öll á kúpunni hefði fólksflóttinn varla orðið minni.
Auk þessa ber að geta þess að landsbyggðarflóttinn er búinn að vera viðvarandi síðan Ísland iðnvæddist um þarsíðustu aldamót. Vandamálið varð ekki til þegar kvótakerfi var innleitt í sjávarútvegi. T.d. kom fram fyrsta byggðaáætlun Vestfjarða árið 1963 sem miðaði að því að stöðva brottflutning úr landshlutanum. Vandanum var bara slegið á frest með því að drita niður togurum sem víðast á árunum milli 1970 og 1980. Það setti svo fiskistofnana í stórhættu.
Ein upphrópunin er að sumar byggðir hafi notið meiri kvótaeignar og að þetta hafi verið gjafakvóti. Hið rétta er að það var ekki verið að gefa mönnum kvóta heldur var verið að skerða tækifæri allra í sjávarútveginum til að veiða fisk. Þegar kvótakerfið var sett á máttu menn veiða minna en þeir höfðu gert. Það var öll gjöfin. Kvótanum var útdeilt í hlutfalli við veiðireynslu og því fengu byggðirnar allar minni veiðiheimildir en þær höfðu.
Björgvin Sigurðsson segir örfáa hafa fengið yfirráð yfir hinni sameiginlegu auðlind og að mesta eignatilfærsla sögunnar hafi átt sér stað.
Þetta eru mjög kunnuglegir frasar en að sama skapi með mjög hæpið sannleiksgildi. Um þessa ofsalegu eignartilfærslu má segja að þegar tekið var upp kerfi með framseljanlegan kvóta var bullandi tap í sjávarútveginum.Þessi eignartilfærsla var því tilfærsla á tapi, eða neikvæðri eign. Það höfðu hins vegar of margir verið að nýta auðlindina, með óhagræði fyrir alla.
Smátt og smátt tókst að snúa vörn í sókn vegna hagræðingarinnar sem fylgdi framsalinu og sjávarútvegurinn fór að skila hagnaði í staðinn fyrir tapi. Þetta finnst jafnaðarmönnum sjálfsagt hin mesta hneysa og dettur manni þá í hug mögulegur skyldleiki við menn sem vilja reka auðuga menn úr landi til að auka jöfnuðinn. Staðreyndin er sú að það er kvótakerfinu og frjálsa framsalinu að þakka (eða að kenna, fyrir þá sem þannig hugsa) að sjávarútvegurinn stendur undir sér sjálfur.
Ekkert hefur enn komið fram sem er betra en núverandi kerfi. Átti á sínum tíma að leyfa ótakmarkaðar veiðar og láta fiskistofnana hrynja? Hefði það komið byggðunum betur? Hefði það verið sanngjarnara og réttlátara?
Átti að leyfa ótakmarkaðar veiðar og láta arðsemina vera neikvæða með tilheyrandi gjaldþrotum? Hefði það komið byggðunum betur eða verið sanngjarnara og réttlátara?
Átti að banna mönnum að selja kvóta? Hvernig átti þá að vera hægt að kaupa kvóta og byrja í greininni? Hvernig átti að vera hægt að fækka skipum ef menn gátu ekki selt sig út úr greininni? Hefði verið sanngjarnara að banna kvótaleiguna eða bremsa hana á einhvern hátt? Hvernig áttu menn þá að fara að sem áttu þorskkvóta en lentu í því óhappi að fá ýsu með í veiðarfærin? Átti þá að henda ýsunni? Landa henni fram hjá vigt?
Kerfið er örugglega ekki fullkomið en hvað er skárra?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.3.2007 | 08:36
Erlent vinnuafl
Fyrir stuttu var ég að hlusta á Útvarp Sögu. Þar var m.a. verið að ræða um útlendinga og innflutt vinnuafl. Einn hringdi og var mikið niðri fyrir og sagðist vita mörg dæmi um að útlendingar væru teknir fram yfir Íslendinga í vinnu. Íslensk iðnaðarmannastétt væri í stórhættu. Hann og Sigurður útvarpsmaðu ræddu þetta fram og aftur, nefndu nokkur dæmi og býsnuðust yfir því að ríkisstjórnin hefði leyft óheftan innflutning vinnuafls (sem er ekki einu sinni rétt). Síðan kom að punktinum sem hreyfði við mér. Mitt í hneykslaninni viðurkenndu þeir ástæðu þess að atvinnurekendur í sumum störfum eru farnir að taka erlent vinnuafl fram yfir íslenskt: "...útlendingarnir leggja meira á sig og Íslendingarnir eiga það til að mæta seint og illa."
Þetta er kjarni málsins. Eigum við þá að loka landinu og leyfa íslensku vinnuafli að komast upp með að leggja lítið á sig, mæta seint og illa? Eða höfum við kannski orðið gott af samkeppninni? Eigum við að ala þjóðina upp í slíkri vernd að menn komist upp með leti af því að atvinnurekandinn hafi ekkert annað val?
Dugnaður hefur verið aðalsmerki Íslendinga til þessa. Það er okkur í lófa lagið að klúðra því með ofverndun vinnumarkaðsins. Samkeppnin á að brýna okkur. Tungumálið ætti að veita íslensku vinnuafli forskot en ef það dugir ekki til þá verðum við að taka til í okkar eigin ranni. Dugnaðurinn býr í okkur og hann á líka að gefa okkur forskot á annað vinnuafl. Við megum bara ekki komast upp með að kæfa hann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.3.2007 | 11:36
Barnaklám
Þetta er ljótt. Þarna er um hreinræktaða glæpamennsku að ræða og það ber að berjast gegn barnaklámi með kjafti og klóm. Nauðsynlegt er að upplýsa fólk um þessa afkima netsins og hvernig begðast skuli við. Þarna má ríkisvaldið grípa inn í. Upplýsing og aftur upplýsing. Síðan er það okkar foreldranna að vernda börnin okkar. Gríðarlega mikið er til af tölvubúnaði sem getur verið foreldrum til hjálpar þegar vernda skal börnin gegn viðbjóðinum og það er gott en fyrst og fremst þurfa foreldrarnir að fylgjast sjálfir með því hvað börnin eru að gera. Tækin leysa okkur (vonandi) aldrei af hólmi. Enn og aftur eru samskipti og tengsl foreldra og barna það sem skiptir mestu. Ábyrgðin er hjá okkur og það er okkar að berjast gegn þessu. Tækin og úrræðin (lögreglan) eru fyrir hendi.
Pössum börnin okkar, það gerir það enginn betur en við sjálf .
![]() |
Um 30-40% ábendinga barnaklám |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)