Við viljum borga meira!

"Við viljum borga meira!" Ætli þetta standi efst á skjalinu í undirskriftasöfnuninni?

Nú ætla ég alls ekki að halda því fram að starfsmenn leikskóla séu of hátt launaðir. Börnin eru það mikils virði að fyrir trausta og góða þjónustu á leikskólunum væri ég tilbúinn að greiða starfsfólkinu töluvert hærri laun. Vandinn er bara ekki sá að við viljum ekki að þeir fái betri laun, við viljum bara ekki borga hærri gjöld. Stjórnmálamenn ginna okkur í atkvæðaveiðunum. Lofa okkur ókeypis hinu og þessu og kippa þannig frá okkur raunveruleikanum.

Það er gömul og ný saga að þegar gæði kosta minna verður meiri eftirspurn eftir þeim. Meiri eftirspurn eftir leikskólarými kallar á auknar húsbyggingar, fleira starfsfólk og dýrari rekstur. Þetta kostar mikið fé.

Á sama tíma og við viljum fá ókeypis þjónustu er krafan uppi um lækkandi opinberar álögur. Þarna stöndum við frammi fyrir vandamáli. "GLEÐIBANKAVANDAMÁLI" Við leggjum ekkert inn, tökum bara út. Það er ekkert skrítið að lítið fé sé aflögu til að greiða almennileg laun í þessari klemmu. Það er þar að auki innbyggt vandamál hjá hinu opinbera að ef lágu launin eru hækkuð þá skapast gríðarlegur þrýstingur á að hækkunin stígi upp launastigann líka. Þá endar það með því að lokaniðurstaðan er algerlega óbreytt og við borgum gæslufólki gullanna okkar áfram hlutfallslega "skid og ingenting" samanborið við gæslumenn peninganna okkar.

Hann er því stórskrítinn sá pólitíski veggur sem hamlar því að vandamálið sé leyst. Nefnilega að greiða götu einkareksturs enn frekar. Þá borgum við það sem okkur finnst sanngjarnt að borga fyrir þessa dýrmætu þjónustu. Hið opinbera gæti áfram hjálpað til, t.d. með heimgreiðslum, niðurgreiddu námi fyrir leikskólakennara og öðru slíku. Hið opinbera hefur hins vegar í gegn um tíðina eingöngu tafið fyrir lausninni. Þetta er búið að vera viðvarandi vandi síðan ég man eftir mér, og það má helst aldrei benda á þessa orsök vandans.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að einhverjum komi til með að líka þetta illa sem lesa bloggið en það verður að hafa það. Vandamálið er sjálfskapað og það hlýtur að koma að því að við viljum leysa það í raun og veru.


mbl.is Foreldrar krefjast þess að laun leikskólastarfsmanna verði bætt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gleðibankavandamál. Frábært orð.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 2.10.2007 kl. 15:34

2 identicon

Það er ótrúlegt hvað ríkið ber litla virðingu fyrir sínu fólki, öllu sínu fólki, ekki bara fyrir leikskólakennurum og framtíðinni okkar sem þar dvelur langtímum saman heldur öllum umönnunarstörfum og þar af leiðandi því fólki sem þá þjónustu þarf að þiggja.

Er það ekki samt þess virði að hækka laun þessara stétta þrátt fyrir að aurapúkarnir þarna uppi fái meira fyrir vikið, verður ekki bara að hafa það?? Maður spyr sig. Held að mikilvægast að laun þessa fólks verði til þess að það geti haft til hnífs og skeiðar.

Agðan (IP-tala skráð) 4.10.2007 kl. 23:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband