Lífið er ljúft

Það er fátt bitastætt í fréttum þannig að hér læt ég smá pistil um mína daga: 

Þeir róðrar sem ég fór í í síðustu viku tókust vel og töluvert mikið var af þorski og mjög vel höldnum. Þetta er reyndar sama sagan ár eftir ár eftir ár. Haustin eru róleg og stundum léleg og lítið um almennilegan þorsk, síðan þegar kemur fram í lok nóvember fer að glæðast og í janúar er fiskiríið orðið gott. Það er vissulega undarlegt að við sjómennirnir skulum aldrei verða varir við þær gríðarlegu breytingar sem eiga að hafa orðið í þorskinum allra síðustu ár. Ef það er orðið svona lítið af þorski, ættum við þá ekki að verða meira varir við fiskleysi??? Hins vegar hafa menn verið að forðast þorsk nú og í allt haust og það kemur svo örugglega til með að skekkja myndina enn meira, í augum Hafró. Svona er sjómannslífið undarlegtWoundering.

Í gær stýrði ég fundi í smábátafélaginu Snæfelli og það gekk mjög vel. Fundurinn var mjög áhugaverður en þar var rætt og kosið um kjarasamning fyrir smábátaflotann. Samningurinn var felldur með öllum þorra atkvæða, enda hnökrar á honum sem ekki var hægt að láta fram hjá sér fara.  

Í skólanefndinni er nú verið að fara yfir nýju skólafrumvörpin og það er töluvert lesefni sem þarf að fara yfir þar bæði fyrir leikskólann og grunnskólann. Það er síður en svo víst að sumar breytingarnar henti minni samfélögum þrátt fyrir að vera kannski þarfar breytingar fyrir stærstu sveitarfélögin. Sjáum hvað setur...

Nú er skólinn að fara af stað aftur og spennandi námskeið framundan. Sérstakan áhuga hef ég á námskeiði sem heitir ,,Stjórnmál og stjórnsýsla sveitarfélaga" og öðrum sem heitir ,,Almenningsálit og stjórnmálaatferli".

Í hádeginu borðaði ég í nýju aðstöðunni á Háskólatorginu. Mötuneytið heitir ,,Háma" sem mér finnst nú ekkert sérstaklega aðlaðandi nafn og að sjá það við hverja sætabrauðstegundina sem á boðstólum er, finnst mér ekki fallið til þess að auka á matarlist kaupenda en því meira á samviskubitið. Mjög hávært er í matsalnum og ég á erfitt með að sjá fyrir mér að það verði jafn hlýlegt að sitja þarna og spjalla yfir hádegisverðinum eins og í hinum litlu en hlýlegu kaffistofum sem hingað til hafa verið notaðar. En hver veit?

Aðstaðan verður þó sennilega mjög flott og góð og það er gott að vera kominn með bóksöluna og alla þjónustu svona miðlægt og undir sama þak.

Lífið er bara nokkuð ljúft og ég verð að vera nokkuð ánægður með að þurfa ekki að naga mig í handabökin yfir hlutabréfamarkaðnum. Svona er þetta. Í sumar bölvaði ég heigulshætti mínum fyrir að taka aldrei sénsinn og fara út í fjárfestingar á markaðnum... nú er ég feginn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband