Færsluflokkur: Bloggar
17.5.2008 | 00:04
Næsti forseti?
Mig grunar að John McCain verði næsti forseti Bandaríkjanna. Ekki það að ég telji Republikana eitthvað betri kost heldur en Demókrata, enda sýnast mér Republikanar óttalegir afturhaldssinnar í mörgum mjög mikilvægum málum. Báðir flokkar hafa sínar góðu hliðar.
Ég held hins vegar að Obama muni ekki hafa það af að klofa yfir ýmsa háa þröskulda í hugarfari Bandaríkjamanna. Ég held meira að segja að margir Demókratar muni annað hvort kjósa gegn honum eða sleppa því að kjósa (þeir sem styðja Clinton hvað harðast). Þeir munu frekar halla sér að McCain, sem hefur gefið ýmsum frjálslyndari gildum undir fótinn heldur en Bush gamli.
Clinton og Obama eru auk þess búin að eyða alveg brjálæðislegum kröftum í að berja á hvort öðru og ég efa að þau geti náð sér nægilega vel á strik á nægilega góðum tíma. Á meðan eflist McCain og skipuleggur sig og bardagann. Þau eru að eyða tímanum í að eyðileggja fyrir Demókrötum.
Þegar kemur svo að því að sá fræjum óttans, þá eru öryggismálin einfaldlega svo magnað innlegg í bardagann (huglægt) að þegar kjósendur koma að kjörkassanum munu þeir ekki þora að kjósa Obama. Það er kannski ósanngjarnt og fordómafullt af kjósendum, en ég er nú samt hræddur um að þannig sé þetta nú bara.
Ofsalegasta fjölmiðlafár seinni tíma (og það í ekkert smá langan tíma) hefur sennilega verið um frambjóðandann sem tapar!
Það er skrítið!
Obama er ábyrgðarlaus | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.5.2008 | 22:31
4/4
Þá eru prófin búin og sjómennskan tekur við á ný. Það gekk bara mjög vel í prófunum (held ég) og útkoman úr 2 fyrstu er þegar komin. Þar get ég ekki annað en verið mjög ánægður.
Annars er bara blessuð blíðan.
OG MIKIÐ VILDI 'EG AÐ MENN TÆKJU SIG SAMAN 'I ANDLITINU Í XD REYKJAVÍK!
Annars er bara blessuð blíðan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.5.2008 | 08:59
Úrelt auðlind?
Það er með ólíkindum að hugsa til þess að Árni Finnsson hafi latt menn til þess að leita að olíu við Ísland. ,,Olían er að úreltast sem orkugjafi" sagði hann og taldi að þótt menn finndu hér olíu þá ættu menn ekkert að vera að nýta hana og enn síður að vinna hana hér. Þetta kom fram í viðtali við hann í Speglinum á Rúv fyrir nokkru síðan. Þeir sem stóðu að viðtalinu hegðuðu sér að auki eins og klappstýrur sem hvöttu hann áfram.
Þetta er auðvitað í stíl við það að nýta heldur ekki aðrar auðlindir landsins - ekki virkja árnar - ekki gera neitt.
Við sjáum það svart á hvítu að við verðum að nýta auðlindir okkar. Við verðum að auka útflutninginn og bæta vöruskiptajöfnuðinn. Það gerum við aðeins með aukinni framleiðslu þess sem hagkvæmt er að framleiða hér á landi. Ekki með óhagkvæmri framleiðslu.
Og ef við finnum gull - hvort sem það er svart gull eða glært (í formi virkjunarvatns eða drykkjarvatns) þá förum við varla að vera svo vitlaus að vita bara af því hérna hjá okkur.
Eða hvað?
Gríðarlegur hagnaður hjá StatoilHydro | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.5.2008 | 22:52
3/4
Þá eru þrjú próf búin af fjórum og hingað til hefur bara gengið vel. Nú kemur smá pása, til 14. maí en þá er síðasta prófið - og jafnframt það sem mér lýst verst á, en það bjargast þó örugglega. Vonandi koma nú nokkrir dagar sem maður getur róið, það er orðið ansi langt síðan maður hefur getað verið í vinnunni og það veitir ekki af að taka sig á þar.
Var annars á skemmtilegri leiksýningu í dag. Leikfélag bæjarfélagsins setti á svið Allt í plati. Það var mjög skemmtilegt og mikið fjör.
Annars er bara loksins komið vor og lóurnar syngja. Það er æðislegt. Setti hér mynd af atvinnutækinu til gamans.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.5.2008 | 00:18
Reiðhjól
Ég hef stundum verið spurður spurningarinnar ,,ertu á móti Evrópusambandinu?" og svo hefur verið horft á mig rannsakandi augum til að pæla út viðbrögðin.
Ég er alls ekki á móti Evrópusambandinu - alls ekki. Það má alveg vera til og damla í sínu fari fyrir mér, gangi þeim allt í haginn. Ég er hins vegar andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu. Evrópusambandið hentar okkur ekki að mínu mati. En hver veit? Einhvern tíma getur verið að það verði öðruvísi en ég hef grun um að það verði seint.
Það er hins vegar Framsóknarmönnunum líkt að eltast við tískusveiflurnar - þeir læra seint, það hefur alltaf komið í bakið á þeim.
Einhvern vegin hef ég sömu skoðun á Evrópusambandinu og reiðhjólum - Þetta getur bæði átt tilverurétt og ég er alveg sáttur við ákvörðun þeirra sem hafa ákveðið að nota þetta. En hvorki hjólreiðar né Evrópusambandið er eitthvað sem heillar neitt sérstaklega.
Þarf að breyta stjórnarskrá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.5.2008 | 15:05
Áttu Geirfinn?
Þetta er auðvitað stórgóð hugmynd og eykur mjög á fjölbreytni spilanna og þar með á dægradvöl fanga. Ég sé fyrir mér t.d. veiðimann ganga svona fyrir sig:
Áttu Leif? Nei, dragðu!
Áttu Geirfinn? Nei, dragðu!
Spilastokkar með týndum manneskjum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.4.2008 | 23:38
2/4
Þá eru 2 próf búin og 2 eftir. Hingað til hefur gengið vel en sennilega eru strembnustu prófin eftir. Annars var þessum helmingi próftarnarinnar lokið á mjög skemmtilegan hátt. Forseti Alþingis bauð upp á prívat - kynnisferð um Alþingishúsið og ræddi um bæði líðandi stund og liðna tíma. Gestrisnin og vingjarnlegheitin þar á bæ eru ekki skorin við nögl. Sturla er afskaplega viðkunnanlegur maður og höfðingi heim að sækja. Eins og ég hef áður lýst hér tel ég að ekki finnist heppilegri einstaklingur í þingheimi til að gegna starfi forseta Alþingis. Ég þakka kærlega fyrir.
Annars lítur ekki út fyrir að veðurguðirnir ætli að spila með mér. Ég hafði vonast eftir sjóveðri á morgun og kannski á miðvikudaginn því eftir það verð ég að loka mig af yfir bókunum aftur. Það lítur hins vegar út fyrir N - brælu næstu daga.
Einn háseti sem vann hjá mér fyrir nokkrum árum hafði aftur á móti heppilega afstöðu til lífsins (þegar svona stendur á): "Maður tekur bara því sem guð gefur manni".
Það er víst best.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.4.2008 | 20:33
1/4
Þá er eitt próf búið og þrjú eftir. Á mánudag er næsti slagur en þá verður prófað í áhugaverðasta námskeiði vetrarins, Stjórnmál og stjórnsýsla sveitarfélaga.
Annars er ótrúlega erfitt að loka sig inni og lesa þegar sólin skín og fuglarnir syngja. En þetta er samt munur frá því í fyrra þegar próflesturinn var í síðustu viku kosningabaráttunnar. ÞAÐ var erfitt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.4.2008 | 21:47
Sammála um að vera ósammála
Það er góður eiginleiki að festa sig ekki í þeim hlutum sem menn eru ósammála um. Hver hefur rétt á sinni skoðun.
Að mínu mati felst þó í þeirri hugsjón að þröngva ekki sinni skoðun upp á aðra - það er að vera sammála um að vera ósammála. Bretar ættu því að vera sáttir við að leyfa okkur að veiða hval í friði en sleppa því bara sjálfir. Ég get líka unnað þeim að vilja ekki borða hval (finnist þeim hann vondur á bragðið eða bara dúllulegur). Hins vegar get ég ekki unnað þeim að reyna að fá aðra ofan af því að borða hval eða okkur ofan af því að veiða hval - að því gefnu að um sjálfbærar veiðar sé að ræða.
Ég fæ extra-large aulahroll þegar ég sé fréttir af matvælaskorti í heiminum, 100% verðhækkunum á hinum og þessum undirstöðumatvælum og upphlaupum vegna hungurs. OG HVALIRNIR SYNDA BARA HJÁ! Og ef þeir eru í alvörunni svona voðalega gáfaðir þá eru þeir ÖRUGGLEGA GLOTTANDI.
Það er þvílík hræsni hjá valdhöfum heimsins að þykjast hafa áhyggjur af matvælaskorti í heiminum - en fyllast svo stolti yfir því að vernda þetta nautakjöt hafsins.
Það er ekki að vera sammála um að vera ósammála heldur að vera sammála um að eltast við tískubylgjur.
Ósammála um hvalveiðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.4.2008 | 12:43
Innistæðulausir
Í upphafi mótmæla sinna áttu atvinnubílstjórar vissan skilning hjá mér á málstað þeirra. Eldsneytisverðið er vissulega orðið brjálæðislega hátt og setja stórt strik í reikninginn, hvað varðar rekstur þeirra fyrirtækja. Hins vegar hefur komið í ljós að á Íslandi er álagning stjórnvalda á eldsneyti lág í samanburði við önnur lönd.
Hvað varðar hvíldartímann verð ég að segja að þar togast á tvö sjónarmið. Andstaða mín gagnvart afskiptasemi frá Brussel og skilningur á séríslenskum aðstæðum, annars vegar, og hins vegar öryggissjónarmið. Við megum ekki gleyma því að þreyttir bílstjórar geta verið ansi hættulegir. En þarna spila aðstæður vissulega inní og ég veit að það eru tvær hliðar á þessu máli.
Hins vegar hafa atvinnubílstjórar smátt og smátt verið að ganga á þann höfuðstól skilnings sem þeir áttu hjá mér. Hver er nú ávinningurinn af því að trufla forsetafund á Bessastöðum? Getur Ólafur Ragnar gert eitthvað í olíuverðinu? Getur Abbas gert eitthvað í olíuverðinu? Eru þeir kannski að mótmæla ónauðsynlegum fundi?
Við þessum þremur spurningum er svarið neikvætt. Þar af leiðandi er um barnalegt athæfi að ræða sem kemur bara neikvæðu ljósi á okkur í fjölmiðlum erlendis...... Er það nú það sem við þurfum mest á að halda þessa daganna?
Atvinnubílstjórar eru því miður innistæðulausir hjá mér þessa dagana!
Bílstjórar stefna að Bessastöðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)