Færsluflokkur: Bloggar

Öflugir Framsóknarmenn

Þeir eru öflugir, Framsóknarmennirnir. Það var ekki við öðru að búast en að lausnin á okkar þrautum kæmi úr þeirra ranni.

Gjaldmiðilsnefnd Framsóknarflokksins hefur komist að þeirri niðurstöðu að annað hvort skuli halda áfram að vera með íslenska krónu eða....    ekki.Woundering

Það er ekki að spyrja að þeim.

?


mbl.is Efling krónu eða upptaka evru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fátt er svo með öllu illt....

...að ei boði gott.

Ónotatilfinningin sem fór um mann í gær þegar maður hlustaði á fréttirnar af gjaldþrotum og hruni er víst ekki alveg farin. Vissulega er ýmislegt sem minnir á kreppuna miklu en þó verður að gæta sín á því að láta ekki fjölmiðlamenn hlaupa með sig í gönur. Þeir einblína á þá þætti sem minna á kreppuna miklu en fjalla mikið síður um það sem gefur tilefni til bjartsýni. Það er að mörgu leiti hættulegt því heimskreppan mikla var einmitt að töluverðu leiti grundvölluð af ótta og hræðslu. Hér verður að draga andann djúpt og telja upp að tíu. Þessari niðursveiflu lýkur og ný uppsveifla hefst á ný. Þá munu þeir græða sem hafa vit á því að gera hagstæð viðskipti í niðursveiflunni - en þeir sem hafa sýnt fyrirhyggju og eiga annað hvort fjármagn eða nægilegt traust til að fá aðgang að fjármagni eru þeir sem geta keypt eitthvað núna. Slíkar sveiflur eru eðlilegar til hreinsunar kerfisins. Svo má segja að stjórnmálamenn með mikilmennskubrjálæði eða ofsahræddir og vænisjúkir kaupsýslumenn geti gert sveiflurnar of miklar og ýkt áhrif þeirra. Það er vandi sem hægt er að vinna í.

Það góða sem m.a. þessi frétt boðar er lækkun hráolíuverðs. Hún mun auðvelda verðmætasköpun og ýta undir ris efnahagslífsins á ný. Auk þeirra frábæru tíðinda að mínar ferðir til höfuðborgarinnar og til baka verða ódýrariSmile. Það eru auðvitað bestu tíðindin. Ég fer því með bros á vör niður á bensínstöð að taka bensín fyrir næstu Reykjavíkurreisu.

Ég veit nefninlega að þeir hjá olíufélögunum eru ekki lengi á sér að lækka bensínverðið. Þeir fylgjast vel með og voru fljótir að hækka verðið. Nú verða þeir auðvitað eldsnöggir að lækka það!  

Er það ekki?Angry


mbl.is Hráolíuverð nálgast 92 dali
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þýskir sósíaldemókratar

Nú þegar flestir tjá sig um bandarískar kosningar og stjórnmálahræringar ætla ég að taka mig útúr og skrifa smá um þýska stjórnmálamenn.

Eins og margir muna eftir tóku sósíaldemókratar og Kristilegir demókratar saman höndum eftir síðustu þingkosningar í Þýskalandi. Nokkur líkindi eru með því stjórnarmynstri og því sem við búum við hér á Fróni. Um er að ræða flokka sínhvoru megin við miðju - annar vinstri flokkur en hinn hægri. Auk þess eru þetta stærstu flokkarnir í Þýskalandi. Ég mun ekki dæma frekar um líkindi CDU/CSU við Sjálfstæðisflokkinn en oft finnst mér þó að frelsiselementið vanti í CDU/CSU.

Stjórnarflokkunum í Þýskalandi hefur hins vegar ekki gengið vel að halda fylgi sínu. Sérstaklega hefur sósíalistunum gengið brösuglega og bæði fylgið og skráðir flokksmenn fjúka burt eins og fræ af fíflum (hér meina ég blómið) gera í hvassri norðanátt. Vandamálið virðist vera farsótt sem geysar meðal sósíalistaflokka nútímans - í Bretlandi, Þýskalandi og jafnvel á Íslandi. Vinstri síðunni af flokknum finnst hún vera vanrækt og að flokkurinn hafi svikið málstaðinn. Vinstri flokkurinn í Þýskalandi nýtur góðs af, en einnig (undarlegt en satt) öfga-hægriflokkar. Sósíalistar í Þýskalandi glíma við það erfiða verkefni að stefna ekki þjóðarskútunni upp á sker en reyna þó á sama tíma að sannfæra sína vinstri sinnuðu kjósendur um að þeir séu ennþá alvöru sósíalistar. Einhverjir myndu segja að slíkt kallaðist á ensku "Mission Impossible".

Klárlega er þó þeirra helsti höfuðverkur í dag að þeir eiga enga kraftmikla forystu. Kurt Beck0,1020,1293053,00 formaður var að segja af sér og flokkurinn var að lýsa yfir því að Steinmeier yrði kanslaraefni þeirra í kosningunum á næsta ári. Ekki er talið að Steinmeier hafi sóst mjög eftir þeirri tilnefningu - þeir áttu engan skárri. Hann er hins vegar utanríkisráðherra Þýskalands og því má búast við að samstarf utanríkisráðherrans og kanslarans (Angela Merkel CDU/CSU) fari að stirðna - enda er það orðið opinbert að hann sækist eftir starfinu hennar.

Steinmeier hefur verið talinn hægra megin í flokknum og var einn af höfundum umbótastefnu Schröders, Agenda 2010, sem átti að hreinsa til í velferðarkerfinu (ekki veitti af) en þynntist í fyrsta lagi út og varð í öðru lagi að beittu vopni 0,1020,1293039,00kommúnista gegn sósíalistaflokknum. Steinmeier er hæglátur og teflir aldrei á tæpasta vað. Hann er sagður svo hræddur við að gera mistök að hann geri helst ekki neitt. Der Spiegel segir hann leiðinlegan og að af ótta við að segja eitthvað rangt tali hann óendanlega hægt og svo langt bil sé á milli setninga á meðan hann er að hugsa að oft haldi maður að hann hafi bara dottað! Spurning hvernig honum gangi að vinna sér og flokknum fylgi. Það verður gaman að sjá hvort hann spýtir í lófana.

Kannski verða úrslit kosninganna eins og ég tel að kæmi Þjóðverjum best. Þ.e. að Kristilegir demókratar (CDU/CSU) og Frjálslyndir (FDP) verði í ríkisstjórn. Það var það sem ég bjóst við síðast en mér til mikillar undrunar töldu þýskir kjósendur að leiðin út úr vinstri vítahringnum, sem þeir og velferðarkerfi þeirra var búið að rata í, væri að kjósa enn lengra til vinstri. Die Linken (vinstri vinstri menn) náðu töluverðri uppsveiflu þannig að eina stjórnarmynstrið í stöðunni var ríkisstjórn stóru flokkanna. Þetta er líka ríkisstjórn hinna stóru málamiðlana, en það heitir á mannamáli "að fresta vandamálunum". Ég held að CDU/CSU og FDP yrði góður kostur fyrir Þýskaland. Góð blanda af íhaldsemi og frjálshyggju. Ekki veitir af.


Evrópusambandsaðild

Nú er orðið langt síðan ég setti nýja færslu inn á síðuna og tímabært að gera það áður en ég fer í næstu löngu pásu - að sóla mig í Evrópusambandinu, í landi þar sem borgað er með EVRU (sem er víst alvöru gjaldmiðill), og þar sem allir hljóta því að hafa fulla vasa af peningum. (Akkúrat)

Í fjölmiðlum sumarsins hefur fátt farið hærra en umræða um gjaldmiðilsvandræði og Evrópusambandsaðild. Mikið er gert úr vandræðum okkar hérna á Íslandi, mikilli verðbólgu og kreppu. Lausnin sem helst er nefnd er að varpa gjaldmiðlinum okkar - krónunni - út í hafsauga og ganga í Evrópusambandið. Það á að vera það sem bjargar okkur. Ég ætla aðeins að tjá mig um þetta:

Í fyrsta lagi langar mig að benda á það að þegar Evran var innleidd í Ítalíu lækkaði ekki vöruverð heldur hækkaði um nokkurn veginn 50% (á mörgum vörum 100% til nokkurs tíma en leiðréttist svo aðeins). Launin hækkuðu hins vegar lítið sem ekkert. Mikið af fólki lenti í miklum vandræðum og ástandið er rétt um það bil að ná sér á strik núna - mörgum árum seinna. Svipaða sögu er að segja um amk. Spán og Þýskaland.

Í öðru lagi eru skilyrðin fyrir upptöku evrunnar m.a stöðugleiki í efnahagsmálum, lítill viðskiptahalli og lítil verðbólga og litlar erlendar skuldir. Þannig að þegar við mættum taka upp hina æðislegu evru sem á að lækna alla okkar kvilla - þurfum við að vera búin að losa okkur við kvillana sjálf. Það er eins og ef maður kæmi með veikt barn til læknis og hann segðist eiga frábært lyf til að lækna það. Það eina sem þyrfti að gera væri að vera orðinn heilbrigður til að fá lyfið!!!

Í þriðja lagi velti ég því oft fyrir mér hvað það er sem fólk telur sig fá út úr evrunni. Lægri vextir? Engin verðtrygging? Ok, má vera. En hvað þá? Getur fólk þá haldið áfram að lifa um efni fram á lágvaxtakjörum? Heldur fólk í alvöru að það verði ekkert mál að fá peninga og aftur peninga, án þess að borga nokkuð fyrir það? Heldur fólk að bankarnir láni óverðtryggða milljón og sætti sig við að fá aðeins andvirði 900 þúsunda til baka? Í hvaða draumaheimi lifir fólk eiginlega?

Í fjórða lagi vil ég benda á það að Evrópusambandið er ekki gjaldmiðill. Ýmsir aðilar hafa lýst því yfir að þeir vilji aðildarumsókn að ES til lausnar á gjaldmiðilsvanda okkar. Það er nokkuð ljóst að krónan okkar er ekki gallalaus. En að ganga í Evrópusambandið er ekki bara að taka upp annan gjaldmiðil. Það fylgir því svo óendanlega margt annað - svo  miklar hömlur, svo margir gallar, fullveldisframsal, sennilegar launalækkanir og síðast en ekki síst óendanlegt reglugerðarfargan og hömlur á stærri og sérstaklega smærri fyrirtæki. Ég vil sérstaklega vara ferðaþjónustufyrirtæki við aðild. Hvaða sérstöðu eiga ferðamenn að sækjast í hér á Íslandi þegar allt verður komið undir samræmda Evrópusambandsstaðla?

Mér finnst það í rauninni lúalegt bragð Evrópusambandssinna að nota sér efnahagslægðina til að ýta okkur inn í Evrópusambandið. Efnahagslægðin er úti um allan hinn vestræna heim. Eldsneytisverð og matvælaverð hefur allsstaðar rokið upp í hæstu hæðir. Kreppan hérna heima er ekki tilkomin vegna þess að við séum ekki í Evrópusambandinu og lausnin er ekki sú að ganga þar inn. Ég óttast hins vegar að með Evrópusambandssinna við stjórnvölinn gangi hægt að vinna í öðrum lausnum vandans. Sá vonarneisti hefur nefninlega kviknað að kreppan geti verið nothæf átylla til að sannfæra okkur um nauðsyn aðildar.

Við þurfum einfaldlega að líta í eigin barm. Hætta að eyða um efni fram, enda hlýtur það að vera augljóst að það gengur ekki upp til lengdar að eyða meir en maður aflar. Sennilega verður þetta sársaukafull aðlögun en hún er óumflýjanleg og vonandi lærdómsrík. Evran er engin undraelexír enda þarf efnahagslífið að ná heilbrigði til að mega njóta hans. Það er hins vegar markmið sem verður að nást.


Leiktöf

Það er með ólíkindum að svona geti viðgengist. Maðurinn er að reyna að tefja framgang málsins nógu lengi til að víkja sér undan stríðsglæpadómstólnum og það er ekki nóg með að allir viti það heldur hefur lögfræðingurinn sagt það berum orðum. Og það er ekkert gert!

Í handboltanum væri löngu búið að flauta á þetta og dæma leiktöf.

Fussum svei!


mbl.is Karadzic leggur fram áfrýjunarbeiðni í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hræðilegt

Til hvers er verið að kjósa? Finnst fólki þetta vera til fyrirmyndar?

Komist Mugabe upp með þetta þá er hann einmitt til fyrirmyndar fyrir þjóðhöfðingja í vanþróuðum lýðræðisríkjum (þ.e. þar sem lýðræðið er skammt á veg komið). Svo situr hann í vellystingum á meðan þjóðin sveltur og það eina sem verður gert er að senda mat, svo fólkið hangi á horriminni og Mugabe hafi áfram þjóð til að ráða yfir.

Byltingar eru eyðileggjandi afl og sóa lífum og kröftum fólks. Í lýðræðisríkjum þarf ekki byltingar, aðeins kjördaga. Lýðræðið á að vera til þess að geta skipt um ónýta ráðamenn án þess að skjóta þá... Mugabe er búinn að kasta þeim möguleika á glæ.

Það endar samt með því að það verður skipt um forseta.

Sorglegt.


mbl.is Mugabe lýstur sigurvegari kosninganna í Zimbabwe
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í Svörtum Fötum

Það er eins gott að klæðast ekki hvítu þegar maður fer næst upp á hálendið! Það er hætt við að manni yrði potað inn í danskt búr, eða það sem sennilegra er að maður yrði hreinlega skotinn enda skárra að hafa vaðið fyrir neðan sig.
mbl.is Bjarndýrsútkall í Langadal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt komið

Þá eru allar einkunnir komnar í hús. Þótt ótrúlegt megi virðast hafa þær aldrei verið svona góðar, þrátt fyrir mesta álagið. Meira segja var strembnasta prófið vel yfir væntingum.Smile

Annars er nóg um að vera. Grunnskóladeildin í Ólafsvík fékk Grænfánann á síðasta föstudag og einnig leikskólinn á Hellissandi. Grunnskóladeildin á Hellissandi fær svo Grænfánann í dag. Þannig að ég er að verða nokkuð lunkinn í að halda ræður um gildi umhverfisverndar.

Það er mjög ánægjulegt að Snæfellsbær og Snæfellsnesið skuli vera í fararbroddi í sjálfbærri þróun og virðingu fyrir náttúrunni. Sýnir kannski að þrátt fyrir mikið blaður í vinstri mönnunum eru það hægri stjórnirnar sem stíga skrefin. Það er betra að hafa lægra og framkvæma eitthvað á skynsaman hátt heldur en að hrópa og gera sig breiða, en gera svo ekki neitt.

En hrópin og hávaðinn selst kannski betur í kosningabaráttu. Það verður þá bara að hafa það. Mér finnst betra að lofa minna og standa við meira heldur en að lofa öllu fögru en draga svo allt í land.  


Á réttri leið, og þó..

Þetta er að hluta til rétt hugsun hjá Andrési. En rót vandans er önnur. Þegar ríkið á náttúruna verður hún sennilega alltaf vitlaust verðlögð. Þá spilar pólitíkin og hagsmunapotið ávallt inní. Réttara væri að skilgreina betur einkaeignarrétt landssvæða og þá verður náttúran smátt og smátt rétt verðlögð allt eftir verðmætamati hvers og eins eiganda.

Þá er ég ekki að meina sama sýstem eins og hér þar sem ríkið skilgreinir eignarréttinn sér í hag með málaferlum og leiðindum gagnvart bændum og öðrum eigendum hálendisins.

Auðvitað gæti þetta gert ríkisvaldinu erfitt fyrir með framkvæmdir en vilji menn setja náttúruna á hærri stall en hún hefur verið þá er þetta sennilega sú lausn sem kemur náttúrunni best og kallar ekki á útþenslu ríkisvaldsins eins og sérstakt Verðlagningarráð Náttúrunnar myndi gera.

En það er sennilega nokkuð langt í að svona nokkuð verði að raunveruleika.


mbl.is Vill verðleggja náttúruna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki hissa

Ég er ekkert hissa á því að Obama hafi forskot á McCain í skoðanakönnunum nú. Maðurinn er alltaf og endalaust í sviðsljósinu. Fréttirnar snúast endalaust um baráttu Clinton og Obama á meðan McCain er að vinna í undirbúningsvinnunni. Þá er ekki skrítið að Obama sé fólki ofar í huga.

Þetta hefur hins vegar ekkert forspárgildi fyrir sjálfar forsetakosningarnar, það verður ekki fyrr en þegar líða tekur á haustið sem hægt er að fara að líta á skoðanakannanir með þeim augum.

Ég tek það fram að ég held ekkert sérstaklega með McCain í kosningunum. Ég á í raun eftir að mynda mér skoðun. Mér finnst bara að fjölmiðlar séu að tapa sér yfir Obama og menn megi alveg draga andann og telja upp að tíu áður enn þeir ákveða að Repúblikanar séu búnir að tapa.

Ég held ennþá að svo verði ekkiCool.


mbl.is Obama með forskot á McCain
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband