Færsluflokkur: Bloggar
30.9.2008 | 17:54
Þetta fer alltsaman einhvernvegin
Það styttir öll él upp um síðir. Vissulega fer um mann ónotahrollur í þessu fárviðri en það þjónar engum tilgangi að missa sig algerlega í þunglyndi og svartsýni. Það má nú einhver millivegur vera. Óhófleg bjartsýni fólks þegar dollarinn var í 60kr og evran í 80kr var mjög óskynsamleg og leiddi til þess að tekin var of mikil áhætta í lántökum. En óhófleg svartsýni núna er ekki síður óskynsamleg. Það hjálpar ekkert til að vera þungur á brún og með dómsdagsyfirlýsingar þótt efnahagsástandið í heiminum sé eins og það er. Ástandið mun lagast. Við höfum þó vonandi núna lært fyrir næsta góðæri, að vera varfærnari og jafnvel að leggja fyrir til mögru áranna. Þessi kreppa varir ekki að eilífu. Það kemur aftur góðæri - en það kemur líka önnur kreppa síðar. Á þessu verðum við að læra.
Óhófleg svartsýni er engum til gagns.
Svo ég vitni í Laxnes: ,,Þetta fer alltsaman einhvernvegin".
Sparifé nýtur lögbundinna trygginga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.9.2008 | 22:53
Góðar fréttir
Blogg kvöldsins er um góðar fréttir.
1.,,Svo virðist sem fjárfestar séu að sannfærast um að björgunaraðgerðir bandarískra stjórnvalda verði að raunveruleika. " . Þetta eru góðar fréttir fyrir okkur öll, enda þótt ég finni til vissrar vorkunnar með bandarískum skattborgurum. Bandarísk stjórnvöld bera hins vegar mikla ábyrgð, hvað varðar ,,undirmálslánin" sem komu þessum bolta af stað. Þetta er aftur á móti góð frétt a.m.k. fyrir alla aðra en skattborgara í USA. M.a. okkur.
2. (Þetta ætti eiginlega að vera frétt nr. 1) Í víðfrægum og virtum sjónvarpsþætti í Þýskalandi, hjá Johannes B. Kerner, voru tveir efnahags og fjármálaráðgjafar að ræða um þessa peningakreppu sem ríður húsum. Þeir voru sammála um að í ólgusjó fjármálanna væri nú skynsamlegast að fjárfesta í ,,Kaupthing - Island" . Þetta er frábær frétt og ætti að kæta okkur öll sem vorum orðin uggandi.
3. Á morgun eru réttir og ég er að fara á fjöll að smala. Það eitt út af fyrir sig er mjög góð frétt og gleðileg en svo bætist annað við. Það á að vera miklu betra veður á morgun heldur en var í dag.
Lífið er gott.
Fjárfestar vongóðir um björgun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.9.2008 | 08:40
Hvern vantar ekki meira fé?
Það vantar öllum meiri pening. En þegar verið er að blaðra um að sýna verði aðhald og ábyrgð þá er þetta ekki mjög góð tímasetning.
Orkuveita Reykjavíkur er búin að halda í sér í sambandi við hækkanir í nokkur ár (eftir því sem þeir segja). Það er því undarlegt að ekki skuli vera hægt að halda í sér í nokkra mánuði í viðbót. Það verður þá bara að hægja á framkvæmdum í staðinn. Þá myndi það duga tvöfalt til að draga úr verðbólgunni. Þetta er ansi mikil brotalöm á hagstjórn og stundum mætti ætla að Reykjavíkurhreppur teldi sig lifa í öðru hagkerfi en allir hinir. Til þess að slá á verðbólguna á að draga úr framkvæmdum, ekki að gefa allt í botn og senda svo borgarbúum tvöfaldan reikning.
Mér finnst undarlegt allt tal um að það verði að ná hóflegum kjarasamningum og senda svo út þessi skilaboð á sama tíma. Mér finnst líka að stjórnmálamenn eigi nú að sýna gott fordæmi og fresta launahækkunum sínum um eitt ár - þeir myndu fá það greitt í atkvæðum síðar. Það er svo vel hægt að hækka laun þeirra seinna en þegar menn tala um að sýna ábyrgð þá verða menn ekkert síður að líta í eigin barm. Alþingismenn eru reyndar síður en svo með of há laun - núna er bara ekki alveg besti tímapunkturinn til launahækkana þeirra og ætla svo öðrum að sýna aðhald. Það lítur ekki vel út á pappír.
Þetta eru ekki miklir refir ef þeir kunna ekki að slá sig til riddara - þegar það gæti gagnast almenningi.
OR vantar meira fé | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.9.2008 | 23:52
Alræði valdsmannanna
Það er greinilegt að hlutirnir hafa lítið breyst. Kommúnistaleiðtogarnir og alræðisherrarnir hafa bara skipt um búning en alræðistilburðirnir og valdagræðgin er ennþá nákvæmlega sú sama. Vissulega hafa Bandaríkjamenn gert sitt til að herða á klemmunni en það hefur heldur ekki gerst í neinu vakúmi.
Chaves er kommúnistaleiðtogi af gamla skólanum og Pútín er ósköp einfaldlega einræðisherra sem mun hanga á völdum sínum eins og hundur á roði. Þetta er auðvitað ekkert annað en ögrun á hæsta stigi og verður varla liðin. Það er stundum talað um þíðu í samskiptum en nú finnst mér vera farið að kólna óþægilega mikið.
Þetta minnir óþægilega mikið á Kúbudeiluna, þótt þetta sé auðvitað hrein ögrun og fyrir opnum tjöldum (af augljósum ástæðum). Það er spurning hvort það verður eitt af fyrstu embættisverkum Obama að kljást við þennan vanda, eins og Kennedy á sínum tíma.
Eða verður þetta til þess að hjálpa McCain nógu mikið til þess að Obama þurfi ekki að kljást við raunveruleikann.
Pútín vill kjarnorkusamstarf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.9.2008 | 20:09
,,Erum að brenna á tíma"
McCain hélt ræðu í New York fyrir stundu þar sem hann sagði nauðsynlegt að bregðast strax við efnahagsvandanum með aðgerðum. Það er ljóst að engin samstaða ríkir um tillögu ríkisstjórnarinnar. Ég hef ekki trú á því að þær áætlanir sem nú eru uppi á borðinu verði samþykktar án breytinga, og við erum að brenna á tíma.
McCain vill takast á við efnahagsvandann og gefur í skyn að það sé mikilvægara verkefni en kosningabaráttan. Auðvitað er það líka hluti af kosningabaráttunni. Honum er hins vegar mjög mikilvægt að slegið sé á efnahagsvandann, amk. tímabundið, og áhyggjur fólks minnkaðar. Það má því að mörgu leiti taka hann trúanlegan þegar hann segist vilja leggja sitt á vogarskálarnar í þeirri baráttu. Hvort hans hjálp skipti máli eða yfirleitt annarra stjórnmálamanna yfirleitt er svo annað mál.
Það er hins vegar hætt við að Obama dragi lappirnar í því að bregðast við vandanum. Sjálfsagt þykist hann vera alveg á fullu en af því að þetta efnahagsóveður virðist blása honum byr í seglin mun hann ekkert flýta fyrir lausn vandans, nema síður sé. Hann leggur í mesta lagi inn einhverja flotta ,,kratafrasa" aftur eins og ,,Það verður að nútímavæða efnahagskerfið". Eitthvað sem engin frekari skýring kom á og enginn skilur. Sennilega ekki Obama sjálfur. En þetta hljómar flott og kúl í augnablikinu.
Hinn almenni borgari er að brenna á tíma - en tíminn vinnur með Obama, á kostnað borgaranna.
McCain vill fresta kappræðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.9.2008 | 16:30
Óskynsamleg hækkun
Eðlilegast væri að rétt verð væri á heita vatninu en ég held þó að svo hafi sennilega aldrei verið. Það væri því ekki verið að byrja á neinu nýju þótt verðinu væri haldið niðri svolítið lengur.
Þessi hækkun kemur á mjög óhentugum tíma hvað varðar verðbólgu. Vegur í vísitölunni 0,07% sem virðist ekki mikið en er samt sem áður nokkuð stór póstur. Hætt er við að þetta geri vítahringinn enn verri.
Það væri einnig skynsamlegt af stjórnmálamönnunum, sem voru að fá launahækkanir frá Kjaradómi, að hafna þeim hækkunum til að sýna gott fordæmi í sambandi við kjarasamningagerð. Ég öfunda svosem alþingismenn alls ekki af laununum þeirra en þetta eru viðsjárverðir tímar og nauðsynlegt fyrir alla að vera á bremsunni. Ef hægt er að bremsa niður verðbólguna er hægt að koma fram með þessar hækkanir síðar. Það koma tímar og ráð til þess.
Ég er ansi hræddur um að þær kjarabætur sem m.a. ljósmæður hafa náð fram muni brenna upp og þær munu áður en varir vera á nákvæmlega sama stað í launastiganum og áður. Það sér það hver maður, ef allir ætla að miða sig við þeirra hækkun.
Gengju stjórnmálamenn og háttsettir í stjórnsýslunni á undan með góðu fordæmi, þá væri mun auðveldara að ná fram einhvers konar þjóðarsátt. Það væri öllum í hag og myndi auk þess skila sér í auknu atvinnuöryggi frambjóðendanna.
Heita vatnið hækkar um 9,7% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.9.2008 | 09:12
Stolnar kartöflur
Hver á hvað og hver má hvað? Hver er þá að stela frá hverjum?
Hér er verið að tala um nýtingu jarðvarmaorku í eigin eignarlandi. Einkaframtak og nýtingu eigin landsgæða. Það kemur svosem ekkert á óvart að Össur furði sig á slíkum kröfum.
Spurningin er bara þessi: Á Landsvirkjun eða ríkið allt land fyrir neðan grasrót? Voru þá kartöflurnar sem ég tók upp úr garðinum mínum í gærkvöldi og át með fjölskyldu minni ræktaðar í landi Landsvirkjunar og þar með ekki mín eign? Átum við stolnar kartöflur í gær?
Með nagandi samviskubit yfir síðustu kvöldmáltíð verður mér hugsað til kröfu landeigenda og vona innst inni að þeir fái kröfu sinni framgengt fyrir vorið, ekki síst til þess að vita hvort ég eigi að kaupa útsæði eða ekki.
En svona í alvöru talað. Hér þarf að skera úr málum. Mér finnst nýtingarréttur landeigenda sjálfsagður og yfirgangur Ríkisins rangur. Það er ekkert skrítið að það sé ágreiningur um virkjanamál og verð á orkusölu þegar það er ríkisvaldið sem ákveður allt saman, á sínum forsendum eingöngu. Þegar Ríkisvaldið í rauninni selur sjálfu sér aðgang að auðlindunum er ekki við öðru að búast en að náttúran sé á útsöluprís.
Hér þurfa landeigendur og Landsvirkjun að koma sér saman um afkastagetu jarðvarmageymisins, semja um nýtinguna í samræmi við landareign og verðleggja eftir því.
Össur kallar það rányrkju þegar landeigendur ætla að nýta sitt land en honum finnst ekkert að því að Ríkisvaldið og Landsvirkjun nýti það.
Segir flest það sem segja þarf.
Umsókn landeigenda í Reykjahlíð vekur furðu ráðherra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.9.2008 | 09:52
Úrelt viðskiptabann?
Ég tek það strax fram að ég er ekkert sérlega fróður um Kúbu.
Samt sem áður leiðir maður hugann að því hvort ekki sé orðið tímabært að aflétta viðskiptabanninu. Nú er kominn nýr þjóðhöfðingi (þótt Castro virðist enn bæra á sér við og við) sem hefur boðað vissar breytingar, amk. í orði.
Það sem ég velti fyrir mér er það hvort viðskiptabannið haldi Kúbverjum í Kommúnisma. Þá er það í raun að virka þveröfugt á við það sem það átti að gera. Ætti ekki frekar að vinna meira í því að koma á frjálsum viðskiptum með öllum ráðum? Þá er ekki ólíklegt að fólk snúi baki við stjórnkerfinu.
Það væri kannski reynandi að koma á samningum um afnám viðskiptabannsins samhliða breytingum í viðskiptaumhverfinu. Miðað við núverandi aðstæður gætu stjórnvöld á Kúbu verið tilbúin að reyna slík skref. Þegar allt er stál í stál breytist ekki neitt nema það að Hugo Chaves nýtur meiri og meiri hylli.
Ég held að opnun markaða gæti leyst þá frá kommúnismanum. Nú, ef ekki, þá er hægt að skella í lás aftur.
Uppbygging erfið á Kúbu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.9.2008 | 00:59
Krónan nær sér
Það er í raun jafn öruggt að krónan styrkist aftur eins og það var öruggt að hún gæti ekki haldist eins ofursterk fyrir rúmu ári síðan. Hins vegar er bara spurning hvort stjórnmálamenn tapi sér í æðibunugangi og sýndarmennsku á meðan á þessu ölduróti stendur.
Það er hins vegar sárt að hugsa til þess að við gætum verið að veiða (að mínu mati) 40 þúsund tonnum meira af þorski, sem myndu hjálpa mikið til við að ná jafnvægi í vöruskiptajöfnuðinum og þar með skjóta styrkari stoðum undir krónuna, fyrr en ella.
Margir benda á að við værum ekki í þessum vandræðum með gjaldmiðilinn nú ef við værum búin að taka upp evru og telja að það hljóti að vera nauðsynlegt til að fyrirbyggja slíkar sveiflur í framtíðinni. Það má vel vera að satt sé. Burt séð frá því að við höfum ekki hugmynd um gengi evrunnar eftir 10 ár þá vil ég benda á að um stóran misskilning er að ræða hjá talsmönnum evru. Annað hvort meðvitað eða ómeðvitað. Sveiflur í gengi krónunnar er ekki vandamálið sjálft heldur á vissan hátt aðeins einkenni vandamálsins. Ef við værum með evruna myndi vandamálið lýsa sér í sveiflum á atvinnustigi og launum og þá erum við ekkert að tala um 4% atvinnuleysi (sem þótti mikið á árunum 91-94) heldur sennilega um 10 % líkt og í Þýskalandi og fleiri Evrópusambandslöndum.
Davíð er hressandi eins og fyrri daginn. ,,Það eru lýðskrumarar af versta tagi sem þannig haga sér og maður hlýtur að hafa á þeim mikla skömm og mikla fyrirlitningu"
Þetta er auðvitað óborganlegt. En rétt.
Davíð segir að krónan muni ná sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.9.2008 | 18:19
Þýðing
,,Okkur þótti rétt, í tilefni af þessari sýningu, að tilkynna það að ferðaþjónustan og ríkisstjórnin hafa tekið höndum saman um að verja sameiginlega að minnsta kosti 100 milljónum króna í sameiginlegt átak til þess að reyna að fá fleiri útlendinga til að velja Ísland sem áfangastað núna í vetur,
=
Mér þótti rétt, í tilefni af þessari sýningu, að tilkynna það að ríkisstjórnin hefur ákveðið að veita ferðaþjónustunni að minnsta kosti 50 milljóna króna ríkisstyrk, í sameiginlegt átak til þess að reyna að fá fleiri útlendinga til að velja Ísland sem áfangastað nú í vetur.
Þessi styrkur er meðal annars fjármagnaður með 10% skatti á vaxtatekjur og verðbætur ellilífeyrisþega og forsjálla Íslendinga af sparnaði þeirra á almennum bankabókum. Fólk er hér með hvatt til að leggja fyrir til þess að hægt sé að fjármagna frekari ríkisstyrki.
Ferðaþjónusta Ríkisins
Ríki og ferðaþjónusta taka höndum saman | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)